Hagsmunir Íslands eru í húfi - Landssamband smábátaeigenda

Hagsmunir Íslands eru í húfi„Hagsmunir Íslands eru í húfi

Lítil eyþjóð gerir sig gildandi“

er yfirskrift greinar eftir Örn Pálsson sem birtist í Fiskifréttum í dag 14. ágúst.


Lítil eyþjóð gerir sig gildandi og telur sig þurfa að hafa afskipti af innanríkismálum þjóðar í Austur Evrópu - Úkraínu. Ósætti varð meðal þegna þjóðarinnar í kjölfar kosninga þar sem mjótt varð á munum.  
ÖP á heimasíðu A.jpg
Sigurvegari kosninganna vildi draga úr samskiptum við Rússa og halla sér að Vesturlöndum. Hinn frambjóðandinn vildi styrkja tengsl þjóðarinnar við Rússa. Stefna sigurvegarans olli óróa hjá íbúum sem búa við landamæri Rússlands. Þeir töldu stefnu hans verða til þess að fallna að rýra þeirra hagsmuni sem einungis yrðu tryggðir með því að óska eftir að verða hluti af Rússlandi.


Hvað kallaði á þessi hörðu viðbrögð?

Vesturlönd ákveða að lýsa yfir köldu stríði við Rússa. Þeir skildu beittir efnahagsþvingunum. Utanríkisráðherra fylgdi því eftir með skyndiákvörðun um að heimsækja Úkraínu. Sumir mundu kalla slíkt ögrunum við rússneska björninn. Hann kom einna fyrstur vestrænna valdamanna til Kiew í þeirri atburðarrás sem var hafin. 
Screen Shot 2014-08-14 at 18.19.59.png
Hvað kallaði á þessi hröðu viðbrögð, hef ég ekki hugmynd um, en minnugur þess að það tókst gangvart Eystrasaltsríkjunum þá er staðan allt önnur varðandi Úkraínu. Kannski áleit utanríkisráðherra að Ísland mundi geta orðið forystuafl í mótmælum við að ráðist væri inn í Úkraínu og mundi þannig geta þvingað Rússa til að skila Krímskaga.   


Markaðsstarf er erfitt

Ég álít að Íslendingar eigi að láta af þeim ávana sínum að hlaupa upp til handa og fóta og lýsa yfir afstöðu samtímis stórþjóðum við hin og þessi málefni. Við erum engin stórþjóð, við erum örþjóð sem á allt sitt undir því að geta selt það sem við öflum. Það er ekki sjálfgefið, markaðsstarf er erfitt og gríðarlega kostaðarsamt. Samkeppnin er mikil og hið minnsta feilspor er vatn á millu keppinautanna.

Við skulum átta okkur á því það er fylgst með okkur. Allar yfirlýsingar í utanríkismálum verða að vera þaulhugsaðar frá öllum hliðum. Ég verð að segja það eins og er að það fór nettur óttahrollur um mig þegar það var kunngert að utanríkisráðherra væri á leið til höfuðborgar Úkraínu, ekki einu sinni heldur tvisvar. Ég hafði áhyggjur af mörkuðum okkar í Rússlandi. Mörkuðum sem greiða hæstu verðin og hafa verið vaxandi ár frá ári. Hafði utanríkisráðherra skipulagt för sína og yfirlýsingar í samráði við stærstu markaðsfyrirtæki í sölu sjávarafurða?  


Makrílvertíð stendur sem hæst

Nú stendur makrílvertíð sem hæst. Smábátar eru að verða búnir að veiða helming þess magns sem þeim var áætlað í upphafi vertíðar. Á annað hundrað smábáta stunda veiðarnar og eru 2 menn í áhöfn hvers báts. Bátarnir hafa verið útbúnir til veiðanna með nýjustu tækni þar sem smíði búnaðar fer öll fram hér á landi. Aðeins Astec-tækið og rúllurnar eru innfluttar. Það áætla ég að sé um 10% af heildarkostnaðinum. Smábátar landa aflanum nokkrum klukkustundum eftir að hann hefur verið veiddur og eru gæði hans því gríðarleg. Hann er allur unninn í landi. Því sem hér hefur verið lýst útheimtir hundruðir starfa.
Veiðar stærri skipa ganga einnig vel, heildarveiðin farin að nálgast 80 þúsund tonn sem er rúmur helmingur þess sem ætlunin er að veiða.  


Kaupa íslenskan uppsjávarfisk fyrir 15,5 milljarða

Til þessa hefur gengið vel að selja makrílinn. Rússar kaupa langmest af honum. Útflutningsverðmæti hans á síðasta ári nam 21,3 milljörðum, þar af fóru 42% til Rússlands eða 8,9 milljarðar. Rúmur fjórðungur útflutningsverðmæta uppsjávarafurða kom frá makrílnum. Hann kemur stutt á eftir síldinni, en loðnuafurðir tróna á toppnum með 41% alls útflutningsverðmæta uppsjávartegunda sem endaði í 82 milljörðum á sl. ári.

Rússar kaupa einnig mikið af síld og loðnu, en samanlagt var hlutur þeirra 18,6% í heildarútflutningsverðmæti uppsjávartegunda.Sú hlutdeild nægði þeim til að kaupa héðan mest allra þjóða af uppsjávartegundum, alls fyrir 15,5 milljarða. Norðmenn voru einnig drjúgir, en útflutningsverðmæti til Noregs nam 15,3 milljörðum, þar af voru tveir þriðju í formi mjöls frá loðnu, síld og makríl.
Af þessum tölum má sjá að Rússlandsmarkaður er okkur gríðarlega mikilvægur. Allt sem þangað fer er framleitt til manneldis.   

Það skal því engan undra að hér er stórmál á ferðinni; útflutningur sjávarafurða og utanríkissamskipti. Það skýtur skökku við að þjóð sem hefur úr hvað minnstu að moða varðandi fjármagn til öflunar upplýsinga um utanríkismál skuli taka ákvarðanir sí svona. Mikilvægt er að stjórnvöld fari varlega. Hagsmunir þjóðarinnar eru í húfi.Fiskidagurinn mikli

Mikið var um dýrðir á Dalvík á Fiskideginum mikla um síðustu helgi. Gestum og gangandi var boðið upp á fisk eins og hver gat í sig látið samhliða stórgóðum skemmtiatriðum. Hátíðin var svo toppuð með gríðarmiklum tónleikum í boði Samherja, einum af þeim stærstu sem haldnir hafa verið hér á landi. Eins og við fyrri hátíðir hafa Dalvíkingar og fyrirtæki þar veg og vanda að framkvæmd hátíðarinnar. 

Engin vafi er á að hátíð sem þessi sendir afar jákvæð skilaboð um sjávarútveginn inn í samfélagið. Það vekur athygli á okkar öflugustu atvinnugrein, gefur jafnt ungum sem öldnum tækifæri til að bragða á fjölda fiskrétta og sjá hvað er hægt að gera við fiskinn.
Ég vil með þessum fáu orðum þakka kærlega fyrir þetta glæsilega framlag til sjávarútvegsins.  

 
Höfundur er framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda. 
 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...