Óþolandi afskiptaárátta - Landssamband smábátaeigenda

Óþolandi afskiptaárátta
Úthlutun makrílkvótans við Ísland

Óþolandi afskiptaárátta

er yfirskrift greinar eftir Arthur Bogason sem birtist í Fiskifréttum 4. september sl.


Samkvæmt upplýsingum Fiskistofu hafa veiðst rúm 6 þúsund tonn af makríl á handfæri það sem af er sumri. Samkvæmt sömu heimildum standa 114 bátar að veiðunum.  
Þetta þýðir að lítið er eftir af leyfilegum aflaheimildum til handfæraveiðanna. Þær væru reyndar uppurnar, hefðu yfirvöld sjávarútvegsmála ekki bætt heilum 817 tonnum við þau 6 þúsund tonn, sem handfærabátunum var af rausnarskap ætlað í upphafi vertíðarinnar. Til samanburðar þá var einu uppsjávarveiðiskipinu úthlutað hátt í 15 þúsund tonnum af makríl, eða 2,5 sinnum því sem allur handfæraflotinn skal gera sér að góðu.

Arthur Bogason.jpg

Helmingi meira en heildarkvótinn við Ísland

Þessar staðreyndir strjúka mér svo sannarlega öfugt.  Ekki vegna þess að ég telji stóra skipið illa að sínum hlut komið.  Þvert á móti.  Mín vegna má það fá miklu meira. 
Það er vegna þessarar óþolandi afskiptaárátta stjórnvalda af öllum athöfnum þeirra sem „undir þá heyra“, allt niður í smæstu einingar.
Fyrir stuttu birti Hafrannsóknastofnun þær niðurstöður úr makrílmælingum í Norðaustur-Atlantshafi, að þar héldu sig um 9 milljónir tonna af kvikindinu. Þar af 1,6 milljónir tonna innan íslenskrar efnahagslögsögu.  Sú tala er u.þ.b. helmingi hærri en tillögur Hafrannsóknastofnunar um leyfilegan heildarafla úr öllum nytjastofnum sjávar við Ísland fyrir nýhafið fiskveiðiár.  Já - loðnan og síldin þar meðtalin.


Kemur til að fita sig

Þessi risastóri fiskistofn, makríllinn, hefur um nokkurt skeið gert sig heimakominn á Íslandsmiðum, fyrst og fremst í þeim erindum að fita sig.  Ekki er vitað til þess að hann taki með sér nesti hingað og því étur hann frá þeim stofnum sem fyrir eru - ef ekki stofnana sjálfa.  
Þessum rökum hefur eðlilega verið haldið að þeim sem vilja helst að Íslendingar láti makrílinn afskiptalausan við iðju sína. Makrílveiðarnar séu allt að því nauðvörn til að draga úr þeim usla sem gesturinn veldur í lífríkinu við Íslandsstrendur.

Með jafn auðskiljanleg og skotheld rök hefði verið eðlileg framkvæmd stjórnvalda að virkja, með lágmarks afskiptasemi, getu fiskiskipaflotans til hins ítrasta. Þannig hefðu orð og athafnir speglast hvort í öðru.  Sú leið var ekki valin.  Þess í stað gátu stjórnvöld vart beðið eftir tækifæri til að fara að ráðskast með stórt sem smátt.  


Endalaus smásmuguháttur

Sjálfsagt má skilja orð mín þannig að ég sé andsnúinn hvers kyns regluverki varðandi makrílveiðarnar.  Svo er ekki.  Ég tel hinsvegar að afskipti stjórnvalda eigi að vera í línulegu samhengi við afkastagetu skipanna.  Þá er sjálfsagt að strangar kröfur séu viðhafðar varðandi aflameðferð og nýtingu til manneldis.   

En hvaðan í ósköpunum fá stjórnvöld þá flugu í höfuðið að þau verði að skipta sér af öllum sköpuðum hlutum með endalausum smásmuguhætti?  Er það eitthvert náttúrulögmál að þegar mönnum er treyst fyrir völdum, telji þeir það heilaga skyldu sína að beita þeim á allt og alla, og allstaðar, burtséð frá rökréttu samhengi?  


Núll komma fjögur prósent

Afskiptaárátta stjórnvalda af makrílveiðum handfærabáta er gott dæmi um þetta.  Þegar þeim er skammtað 6.817 tonn úr þeim 1,6 milljón tonnum sem mælast í efnahagslögsögunni er hlutfallið 0,4%. Núll komma fjögur prósent.  Til að kóróna stjórnunarfíknina er þetta prósentubrot mulið í þrjá mánaðarskammta, sjálfsagt til að afstýra útrýmingu makrílstofnsins.  Sé miðað við heildarmagnið, þ.e. 9 milljón tonnin, fer hlutfallið niður í 0,08%, núll komma núll átta prósent

Hvernig þessi vinnubrögð geta verið afsprengi þess málflutnings sem stjórnvöld hafa hamrað á er eitt og sér verðugt rannsóknarverkefni.  Væri hið minnsta að marka það sem valdhafarnir halda fram í orði væru þessar veiðar frjálsar og engu öðru háðar en reglum um aflameðferð.  En til þess að svo megi verða, þurfa þeir sem með völdin fara að láta af afskiptaáráttunni og leita sér aðstoðar varðandi stjórnunarfíknina.  Eða getum við átt von á því að t.d. heilbrigðisráðherra fari að skipta sér af göngulagi fólks?   


Höfundur er fyrrverandi formaður Landssambands smábátaeigenda. 

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...