Um „hentistefnu“ LS - Landssamband smábátaeigenda

Um „hentistefnu“ LS
Ráðherrann og makrílveiðar smábáta

Um „hentistefnu“ LS

er yfirskrift greinar eftir Halldór Ármannsson sem birtist í Fiskifréttum 25. september sl.


Það sem hæst ber á góma þessa dagana er að sjálfsögðu makríll og veiðar smábáta á honum. Ráðherra sjávarútvegsmála ákvað að stöðva smábátaveiðar á  makríl þó að útgefin heildarafli í september hefði ekki verið veiddur. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir Landssambands smábátaeigenda (LS) til að benda ráðherra á hið augljósa í málinu, að útgefinn heildarafli fyrir þann flokk báta sem stundaði veiðar með handfærum væri of lítill, sá ráðherrann ekki þá hlið málsins.


Tengslin við náttúruna

Svo að því sé haldið til haga þá kallaði ráðherrann kröfur og ábendingar LS “hentistefnu” og óábyrgan málflutning. Það eitt lýsir best í hve miklum tengslum embættismenn í ábyrgðarstöðum eru við náttúruna og umhverfi sitt við ákvarðanatöku sem kemur til með hafa áhrif til langrar framtíðar fyrir allt lífríkið á landgrunninu við Ísland. 

HÁrm.jpg

Kjörsvæði makrílsins

Við skulum ekki gleyma því að okkar helstu nytjastofnar svo sem þorskur, ýsa og loðna hrygna á tímabilinu mars - maí og sá lífmassi sem þar myndast er ekki eitthvað sem leggst  bara í botninn og verður stór. Seiðin klekjast út og fara á flakk og eru mikið í hlýsjónum nálægt yfirborðinu þar sem þau nærast á svifi og alls kyns þörungum og fleiru.  Kjörsvæði makrílsins er auðvitað á þessu sama svæði í hlýsjónum nálægt yfirborðinu og ég held að menn mættu spyrja sjálfa sig af hverju það skyldi nú vera.  


Étur 4,5 milljónir tonna hér

Makríllinn í lögsögunni er talinn vera um 1,6 milljónir tonna  og þegar hann er hérna þyngist hann um 40 til 60 %.  Til þess að það geti gerst þarf hann að éta um þrefalda þyngd sína sem er þá um 4,5 milljónir tonna. Ef við tökum dæmi og segjum sem svo að bara þorskseiðaát  makrílsins sé um 2% af fæðu hans þá þýðir það um 90 þúsund tonn, já 90 þúsund tonn.  Bara þessi 2%.  Þetta er einungis sett fram til þess að menn átti sig á því magni sem hverfur af öðrum tegundum við að fóðra makrílinn hérna við landið.


Ábyrgar fiskveiðar

Sú “hentistefna” sem Landssamband sambátaeigenda berst fyrir viljum við kalla ábyrgar fiskveiðar. Við getum stuðlað að því að minnka það inngrip sem makríllinn veldur með umhverfisvænum veiðum og eins er hægt að átta sig betur á því hve mikill hluti fæðunnar er seiði, síli eða önnur fæða. Það verður líka barist fyrir því að hlutdeild krókaveiða við makríl verði sambærileg og við vitum að er og hefur verið til fjölda ára í Noregi. Þar eru um 18% af leyfðum heildarafla veidd á smærri báta eða með krókum. 


Hámarksarðsemi úr hverjum fiski 

Það þarf ekkert að taka það fram að makríll veiddur á þennan hátt er miklu verðmætari vara vegna gæða og ferskleika. Fiskurinn er veiddur sem einstaklingur og meðhöndlaður sem slíkur, ekki bara eitthver massi sem er dælt um borð í bátinn. Það sem við viljum ná út úr hverjum veiddum fiski er hágæðahráefni og auðvitað á allur makríll sem veiddur er að vera til manneldis.


Höfundur er formaður Landssambands smábátaeigenda.

 

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...