Línuívilnun í ýsu verði 30% - Landssamband smábátaeigenda

Línuívilnun í ýsu verði 30%

Línuívilnun var í brennidepli þegar Landssamband smábátaeigenda fundaði með Atvinnuveganefnd Alþingis fyrr í dag.  Formaður og framkvæmdastjóri LS lýstu fyrir nefndinni vonbrigðum sínum með að sjávarútvegsráðherra hefði ekki orðið við kröfum félagsins að draga til baka ákvörðun sína um skerðingu á afla til línuívilnunar í ýsu og steinbít.   Þeir lögðu hart að nefndarmönnum að láta það ekki viðgangast að nefndarálit sem hefði verið forsenda að lagabreytingu í vor væri hunsað.


Á fundinum lagði LS fram þá tillögu að nefndin mundi taka upp að eigin frumkvæði ákvæði laga um línuívilnun þar sem lagt yrði til að línuívilnun í ýsu verði 30% hjá þeim sem beita í landi, 22% þar sem stokkað væri upp í landi og 8% hjá öðrum dagróðrabátum.  Með slíkri breytingu á lögum um stjórn fiskveiða mundi verða brugðist myndarlega við þeim mikla meðafla í ýsu við þorskveiðar.


LS lagði þunga áherslu á það við nefndina að nauðsynlegt væri að bregðast strax við þar sem fjöldi útgerða væri við það að gefast upp.  Það gengi ekki enn eitt árið að greiða töluvert á annan milljarð fyrir leigu á veiðiheimildum í ýsu svo hægt væri að nýta þorskkvótann.    

  

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...