Línuívilnun til umboðsmanns Alþingis - Landssamband smábátaeigenda

Línuívilnun til umboðsmanns Alþingis
Landssamband smábátaeigenda hefur kvartað til umboðsmanns Alþingis yfir ákvörðun sjávarútvegsráðherra að skerða afla til línuívilnunar í ýsu og steinbít.  


Nærri 3 mánuðir eru liðnir frá því LS óskaði eftir því við Sigurð Inga Jóhannsson sjávarútvegsráðherra að hann drægi til baka ákvörðun sína um að minnka ýsuafla til línuívilnunar um 1000 tonn og steinbít um 200 tonn.   Með ákvörðun sinni telur LS að ráðherra hafi virt að vettugi skilyrði sem atvinnuveganefnd setti við samþykkt breytingartillögu við frumvarp hans, um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða, 16. maí sl.   


Í rökstuðningi með kvörtuninni bendir LS á að í nefndaráliti Atvinnuveganefndar Alþingis var eftirfarandi tekið fram:  „Engin meiri háttar breyting er fyrirhuguð um nýtingu á svonefndum pottum á komandi fikveiðiári, en stefnt er að því að áætlun um nýtingu þeirra til lengri tíma verði lögð fram á löggjafarþingi 2014 - 2015.“ 

Alþingi samþykkti breytingartillögu atvinnuveganefndar með áðurnefndri skýringu.


Þar sem ráðherra hefur ekki orðið við beiðni LS um að ýsu- og steinbitsafli til línuívilnunar verði óbreyttur milli ára sá félagið sig knúið til að leita til umboðsmanns Alþingis með málið. 

 


 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...