LS fundar með sjávarútvegsráðherra - Landssamband smábátaeigenda

LS fundar með sjávarútvegsráðherra
Fyrr í dag átti LS fund með Sigurði Inga Jóhannssyni sjávarútvegsráðherra.  
Halldór Ármannsson formaður LS og Örn Pálsson framkvæmdastjóri kynntu honum og fóru í gegnum samþykktir 30. aðalfundar LS.


Ýsa ógnar línuútgerð

Á fundinum kom fram að ráðherra hefur engar töfralausnir við yfirþyrmandi ýsugengd á grunnslóð, sem nú ógnar línuútgerð dagróðrabáta.

Línubali.jpgRáðherra var bent á að ráð væri að hækka línuívilnun í ýsu í 30% og að hún mundi ná til allra dagróðrabáta.  Nægar veiðiheimildir væru til þegar búið væri að skila þeim 1.000 tonnum sem tekið hefði verið úr línuívilnun.  

Leiguverð á ýsu gerir nú fátt annað en að hækka og er svo komið að útgerðaraðilar segja hingað og ekki lengra.  Aðgerða að hálfu stjórnvalda verða að koma strax.


Strandveiðar - sanngjörn tillaga

Strandveiðar voru einnig nokkuð fyrirferðamiklar á fundinum þar sem LS fer fram á að lögum verði breytt, þannig að tryggt sé að veiðarnar megi stunda 4 daga í viku (mánudag - fimmtudag) allt tímabilið maí - ágúst.  Með því yrði öllum svæðum tryggður sami fjöldi daga til strandveiða.  

Á fundinum var því velt upp hversu mikið heildaraflinn ykist við breytinguna.  Það er mat LS að það verði um 1.500 - 2.000 tonn.  Á móti kemur að óverulegar breytingar hafa orðið á viðmiðunarafla til strandveiða frá 2011, en þá voru þær 8.500 tonn af botnfiski en eru nú 8.600 tonn.  Fiskveiðiárið 2010/2011 var leyfilegur afli í þorski 160 þús. tonn, en er nú 216 þús. tonn, og í ufsa var hann 50 þús. tonn, en er nú 58 þús. tonn.  Þegar þetta er haft til hliðsjónar má ætla að ekki ætti að vera mikil fyrirstaða hjá stjórnvöldum að verða við kröfu LS þegar litið er hlutdeildar strandveiða í auknum heildarafla þessara tegunda.


Það er mat LS að fundurinn hafi verið gagnlegur og upplýsandi fyrir báða aðila.


Löndun Patró strandv. 2013.jpg
Löndun úr strandveiðibát á Patreksfirði 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...