Minnsta veiði frá upphafi - Landssamband smábátaeigenda

Minnsta veiði frá upphafi
Árlegur upplýsingafundur um grásleppumál - LUROMA - var haldinn í Amsterdam föstudaginn 6. febrúar sl.   Fundurinn var sá 27. í röðinni, en hann hefur verið haldinn árlega frá 1989. Landssamband smábátaeigenda hefur frá upphafi séð um skipulagningu og boðun þessara funda.
Þátttaka á fundinum nú var mjög góð og komu fulltrúar frá alls 9 löndum.
Luroma label.png

Meðal þess sem kom fram á LUROMA 2015 var að heildarveiði í fyrra, hjá þeim þjóðum sem grásleppuveiðar stunda, var sú minnsta í þau 40 ár sem samantekt talna um grásleppuveiðar nær yfir.  Það er í nokkru samhengi við að markaður fyrir grásleppukavíar hefur gefið eftir á undanförnum árum.   


Ísland og Grænland með 94%

Grænland og Ísland eru leiðandi í veiðum á grásleppu og hafa verið það undanfarin 8 ár, eða frá því veiðar á Nýfundanlandi dróust verulega saman.  Síðasta vertíð skilaði grænlenskum veiðimönnum 9.400 tunnum af söltuðum grásleppuhrognum, íslenskum skilaði hún 7.710 tunnum auk verðmætum í grásleppunni sjálfri.  Alls var afli þessara tveggja þjóða 94% af heildarveiðinni.  
Veiði á Nýfundnalandi og Noregi var nánast engin.  Aftur á móti glæddust veiðar hjá Svíum og Dönum.  


Óvissa um fjölda daga

Talsverður áhugi er nú meðal íslenskra grásleppukarla fyrir veiðunum í ár, enda söluhorfur betri en í fyrra þegar nokkur þúsund tunnur voru óseldar frá vertíðunum 2012 og 2013.

Samkvæmt drögum að reglugerð um hrognkelsaveiðar hefst vertíðin 20. mars og verður útgefinn upphafsfjöldi daga 20 eins og í fyrra.  Endanlegur fjöldi veiðidaga mun liggja fyrir um mánaðamótin mars - apríl, þegar niðurstöður úr vorralli Hafrannsóknastofnunar liggja fyrir.

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...