MSC merktur grásleppukavíar í Svíþjóð - Landssamband smábátaeigenda

MSC merktur grásleppukavíar í Svíþjóð

Ísland er eina landið þar sem grásleppuveiðar eru stundaðar sem hlotið hefur vottun MSC.  Grásleppukavíar framleiddur úr hrognum héðan er nú kominn í búðir í Svíþjóð.  Hér er um hrogn úr grásleppu sem veidd var í upphafi yfirstandandi vertíðar.   


Sænskir neytendur geta því tekið gleði sína á ný og haldið áfram að kaupa grásleppukavíar.   Mikil óvissa ríkti um áframhaldandi sölu í Svíþjóð því búðirnar neituðu að eiga í viðskiptum með vöru sem væri á válista Alþjóðanáttúruverndarsjóðsins (WWF).  Með vottuninni hefur þeirri hindrun verið rutt úr vegi. 


Að öllum líkindum ættu þessar fréttir að hafa áhrif á eftirspurn eftir grásleppuhrognum frá íslenskum grásleppukörlum þar sem þeir einir í heiminum veiða að mati MSC það magn sem skilar af sér sjálfbærum veiðistofni til næstu kynslóðar.  Hafrannsóknastofnun ráðleggur hversu mikið má veiða hverju sinni og er veiðunum stýrt með veiðileyfum, stærð báta, fjölda neta og veiðidögum sem nú eru 32.   Við það bætist að náttúruöflin leika stórt hlutverk í stjórnun veiðanna þar sem veiðileyfi eru ekki veitt á stærri báta en 15 brt. 


818a17230596bf8e_org.jpg
 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...