Endurskoðun aflareglu í þorski - Landssamband smábátaeigenda

Endurskoðun aflareglu í þorski
Það er of lítið veitt

Endurskoðun aflareglu í þorski

Er yfirskrift greinar eftir Halldór Ármannsson sem birtist í Fiskifréttum í gær 4. júní.Þar sem aflaregla í þorski er til endurskoðunar um þessar mundir gefur það mér tilefni til þess að líta bjartari augum til framtíðar varðandi aflaaukningu á næsta fiskveiðiári. Ástæðan er sú að við endurskoðunina verður vonandi tekið tillit til þess hversu mikið er af  þorski í sjónum. Það kemur fram hjá hverjum og einum sem sækja sjóinn að alls staðar eru menn að reyna að veiða þar sem ekki er of mikill þorskur. Þorskurinn er því farinn að verða sem meðafli hjá mörgum við að reyna að ná öðrum fisktegundum. Upplifun fiskimanna sem muna tímana tvenna nú þegar veidd eru um 220 þús. tonn af þorski eða þegar verið var að veiða 350 - 450 þús. tonn af þorski árlega er sú að sjaldan eða aldrei hafi þeir séð annað eins magn af fiski í veiðarfærum.

Halldór  Á.jpg

Fleiri þurfa að koma að rannsóknum

Í þrjá áratugi  hefur togararallið verið það sem stuðst hefur verið við að mestu leyti til þess að áætla stærð þorskstofnsins og annarra bolfiskstofna hér í lögsögu Íslands. Engu hefur mátt breyta í mælingum á stofninum og reiknilíkön og formúlur eru með sömu formerkjum og þegar mælingar hófust. Landssamband smábátaeigenda hefur margoft bent á að aðrir þurfi að koma að mælingum eða rannsóknum á fiski til þess að hægt sé að meta hvort mælingar séu trúverðugar. 


Ekki hlustað á ábendingar

Hafrannsóknastofnun virðist endalaust takast það hlutverk sitt að ná að reikna þorskstofninn niður með endalausum varúðarreglum og virðast ekki sjá stofninn fyrir fiski, frekar en skóginn fyrir trjánum. Í mörg ár hefur LS komið fram með ábendingar til sjávarútvegsráðherra um ársafla hvers fiskveiðiárs og hafa þær verið á mjög skynsamlegum nótum, en á þær hefur ekki verið hlustað. Það hefur verið farið í einu og öllu eftir tillögum Hafró og sagt að engin betri vísindi séu til staðar.  Sú fullyrðing er í meira lagi hæpin þegar litið er til tillagna LS sem grundvallaðar eru á skýrslum Hafró auk samtala og reynslu sérfræðinga sem eru allan ársins hring á miðunum og eiga allt sitt undir því að farið sé varlega í umgengni við fiskistofnana.

Hafrannsóknastofnun 
virðist ekki sjá stofninn
fyrir fiski, frekar en 
skóginn fyrir trjánum

Fyrir fiskveiðiárið 2014/2015 voru talsverðar væntingar um aflaaukningu eftir mikla þorskveiði í flest veiðarfæri og ágætis útkomu í togralli Hafró og sprengjuveiði í netarallinu. Flestir voru á þeirri skoðun að aukningin yrði um 8 - 12%. En útkoman hjá Hafró: fiskurinn 6% léttari en árið á undan og aflaaukningin hljóðaði uppá 0,6% í þorski.


Að fylla fiskabúrið

Hafró virðist ætla sér að fylla fiskabúrið sitt fyrst áður en til aukningar kemur, sjálfsagt til þess að geta sýnt fram á að það hafi verið rétt sem þeir sögðu. Jafnframt eru þeir búnir að sýna fram á með útreikningum að ef dregið er meira úr veiðum þá stækkar stofninn ekki eins og til er ætlast því hann þarf jú auðvitað meira fóður eða æti til þess. Eins hefur Hafró haldið því fram að engu megi breyta í uppsetningu á rallinu, þá fyrst fari allt úr skorðum. 
ICES (Alþjóðahafrannsóknarráðið) hefur lagt blessun sína yfir ráðgjöf Hafró enda fara þeir bara yfir gögnin sem Hafró leggur fram.


Ýsa í Barentshafi 

Það var því ótrúlegt að sjá nýlega frétt sem fjallaði um að hrygningarstofn ýsu í Barentshafi sé tvöfalt stærri en áður var álitið. Það er vegna þess að ICES fór í endurskoðun á aðferðum við stofnstærðarmat. Það skyldi þó ekki vera að þetta ætti við um í okkar lögsögu líka? Að mínu mati höfum við verið að veiða of lítið af þorski á undanförnum árum og margir ráðamenn í þjóðfélaginu við það að fara á límingunum ef talað er um að veiða meira magn en Hafró leggur til. Ástandið á miðunum er orðið þannig að það liggur við að fiskurinn flæði uppúr sjónum í bátana, svo mikið er orðið af þorski á miðunum.


Sveigjanleika þarf 

Ef ekki má breyta neinu við framkvæmd mælingu botnfiska í lögsögunni þá má álíta að aflareglan sé það eina mögulega verkfæri sem hægt er að nýta til þess að aflamagn í þorski verði aukið á næsta fiskveiðiári. Við endurskoðun aflareglunnar þarf að taka tillit til þess að einhver sveigjanleiki geti orðið innan hvers árs og ramminn sem settur er verði ekki eins og það lokaða box sem Hafrannsóknastofnun virðist vera búin að loka og læsa sig inni í. Það verður því fróðlegt að heyra kynninguna sem kemur frá nefndinni sem endurskoðar aflaregluna og vonandi að þar verði tekið tillit til þeirra umsagna sem sendar voru inn til nefndarinnar.Höfundur er  formaður 
Landssambands smábátaeigenda

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...