Öryggismál sjófarenda - Landssamband smábátaeigenda

Öryggismál sjófarenda
Úttekt á sendingarstyrk og mat á fjölda strandstöðva

Öryggismál sjófarenda

Er yfirskrift greinar eftir Halldór Ármannsson sem birtist í Fiskifréttum 20. ágúst sl.Að mörgu er að hyggja þegar öryggismál eru til skoðunar eða umræðu.
Þegar skip eða bátar eru í neyð þá eru þeir öryggisþættir sem til bjargar geta orðið nokkurn vegin í fjórum þáttum.

Í fyrsta og mikilvægasta öryggisþættinum í skipum og bátum er búnaður eins og AIS (Automatic Identification System) sjálfvirkur tilkynningabúnaður og talstöð með skylduhlustun á neyðarrás, rás 16 sem allir sjómenn og sjófarendur eiga að þekkja.

Annar hlutinn eru strandstöðvar, móttökustöðvar sem nema sendingar frá AIS kerfinu og skila þeim til eftirlitsaðila, stjórnstöð þar sem mannaðar vaktir eru hverja mínútu allt árið um kring. Þar er líka tilkynningarskylda skipa og báta sem láta vita af sér við brottför úr höfn og til hafnar aftur.

Þriðji hlutinn eru þau björgunartæki sem eru skylda í hverjum bát sem hefur haffæri. Þau flokkast undir björgunarbát og neyðarlosun hans, flotbjörgunargalla og björgunarvesti.
Halldór  Á.jpg
Fjórði hlutinn eru þau öryggistæki og tól sem gætu komið til hjálpar við björgun s.s. neyðartalstöð, neyðarblys eða takmarka skemmdir skips eða báts ef aðstæður leyfa. Þar er átt við slökkvitæki og búnað og eins dráttartóg eða akkeri sem haldið getur bátnum ef vélbúnaður bilar.


Bætt öryggi en þekkt skuggasvæði

Öryggisþættir hafa batnað til muna undanfarin ár og það eru ekki mörg ár síðan að sjálfvirk tilkynningarskylda var tekin í notkun og í dag erum við með AIS kerfið. Þar er notast við svokölluð AIS A tæki og AIS B tæki og er miðað við stærð skipa og báta eða hve langt frá landi sjósókn þeirra er í landhelginni. Sendistyrkur stærri tækjanna er um 25 wött og kostuðu þau um 600 þúsund krónur á sínum tíma. Minni bátarnir eru allflestir með minni tækin og sendistyrkur þeirra er um 2 wött. Þessi tæki voru talsvert ódýrari eða um 200 þúsund og var talið að þessi búnaður dygði þessum bátaflokki. 

Það hefur sýnt sig að þarna hefur sendistyrkur verið miðaður við bestu aðstæður eða þá að strandstöðvar eru ekki nógu margar til þess að geta náð til allra þeirra báta sem stunda veiðar. Við sem stundum sjóinn þekkjum flestir skuggasvæðin sem eru við strendur landsins í þröngum fjörðum vegna hárra fjalla. Það þarf að endurmeta þörf strandstöðva sem fyrst og gera úttekt á því hvort tæki með 2 watta sendiorku séu nógu öflug við misjafnar aðstæður. 


Gat í kerfinu

Það sem liggur hér að baki er sú umræða sem kom fram fyrir stuttu um að allmargir sem eiga samkvæmt skyldu að hlusta á neyðarrás 16 eru farnir að lækka eða slökkva á talstöðinni vegna stanslausra uppkalla frá stjórnstöð um báta sem hafa dottið út úr eftirlitskerfinu. Þarna er gat í kerfinu sem þarf að laga.
Það má ekki verða þannig að skylduhlustun á neyðarrás sé komin í þann farveg að það þurfi að slökkva á stöðinni eða lækka til þess að fá smá frið. Við ættum að vera í þeirri stöðu að sem flestir leggðu sig fram við að heyra það sem fram færi í samskiptum á neyðarrás 16 til þess að fullvissa sig um að nærstaddur bátur sé ekki í neyð.

Mitt mat er að fyrsti og annar hlutinn sé mikilvægasti hlekkur þessarar öryggiskeðju sem nær til sjófarenda svo að hægt sé að bregðast við sem fyrst ef hætta er á ferðum og því þarf að lagfæra gallana eins fljótt og auðið er. 

Þriðji hlutinn er það neyðarúrræði sem þarf að vera í lagi ef sjóskaði verður. 
Það er neyðarbúnaður til losunar björgunarbáts og björgunarbáturinn sjálfur en þau mál eru efni í annan pistil.


Höfundur er formaður
Landssambands smábátaeigenda

 

efnisyfirlit síðunnar

...