Strandveiðar - eigendaákvæði falli brott - Landssamband smábátaeigenda

Strandveiðar - eigendaákvæði falli brott

Á aðalfundi LS voru strandveiðar mikið ræddar.  Fjölmargar ályktanir frá svæðisfélögum LS bárust til fundarins og því mikil vinna sem lá að baki því sem fundurinn samþykkti.


Tryggðir verði 4 dagar í viku

Samstaða var um að ítreka fyrri samþykktir þar sem þess er krafist að strandveiðar verði efldar að því marki að heildaraflaviðmiðun hamli ekki veiðum á tímabilinu.  Með öðrum orðum að tryggja heimild til strandveiða 4 daga í viku [mánd. - fimmtud] í 4 mánuði [maí - ágúst].

Þegar tekið er mið af strandveiðum 2015 mundi breytingin sem LS fer fram á leiða til þess að fjöldi róðradaga á svæðum A, B og C mundi fjölga um alls 50.   Aflaviðmiðun á sl. sumri nægði hins vegar fyrir svæði D þannig að þar yrði óbreytt stað, að öðru leiti en því að ef fiskgengd mundi aukast væri tryggt að ekki kæmi til stöðvunar í einstaka mánuði.


Eigendaákvæði falli brott

Auk þessa var samþykkt að óska eftir breytingum á reglum um strandveiðar sem varða ákæði um að eigandi skuli róa sjálfur.  Fundurinn taldi að slíkt ákvæði gæti komið í veg fyrir að ungir menn og konur gætu tekið bát á leigu og stundað strandveiðar og því hamlað æskilegri nýliðun.  Samþykkt var að óska eftir að ákvæðið yrði fellt út úr lögum um stjórn fiskveiða en eftir sem áður að hver útgerð megi aðeins eiga einn strandveiðibát.


Bryggjuskattur 

Frá árinu 2010 hefur eigendum strandveiða verið skylt að greiða kr. 50 þús. til viðbótar strandveiðileyfinu.  Upphæðin sem myndast hefur vegna þessa hefur síðan runnið til hafna landsins í hlutfalli við landaðan afla af strandveiðum.  Aðalfundur LS taldi að nú væri komið nóg og samþykkti að þess yrði krafist að gjaldið verði aflagt.    


Samþykkt á aðalfundi LS 2015:  
Strandveiðar (1).jpg

Löndun Patró strandv. 2013.jpg


 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...