Túristar upplifa strandveiðar - Landssamband smábátaeigenda

Túristar upplifa strandveiðar
Það hefur ekki farið fram hjá strandveiðikörlum hversu mjög erlendir ferðamenn sækja eftir nærveru þeirra.  Oft hópur á bryggjunni að horfa á þegar lagt er að.  Skyggnst niður í bátinn og andköf tekin og þeirri spurningu beint til sjómannsins:  Veiddirðu þetta allt einn?
Löndun hafin og túristarnir hópast að til að sjá fiskinn, geislandi af ferskleika baðaður í ís.  Spurt er hvort ekki sé hægt að kaupa einn fisk.  Jú - ekki málið - viðskiptin fara fram.  Dæmi um að greitt hafi verið 5.000 krónur fyrir einn fisk.  En þá fylgdi með góð saga af róðrinum sem töfraði viðskiptavininn upp úr skónum.

Nú er komin fram þingsályktun sem líkleg er til að gefa ferðamönnum tækifæri til að fara í róður á strandveiðibát.  Upplifa sjóferðina og það sem fram fer.  Flutningsmenn tillögunnar eru 6 þingmenn Sjálfstæðisflokksins, fyrsti flutningsmaður er Guðlaugur Þór Þórðarson.


Þingsályktunin:
„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa viðeigandi breytingar á lögum eða reglum í samráði við hagsmunaaðila og viðeigandi stofnanir í því skyni að heimila ferðamönnum að vera við veiðar um borð í bátum sem hafa strandveiðileyfi.  Frumvarp þess efnis verði lagt fram í upphafi 146. löggjafarþings.


Í greinargerð með þingsályktuninni segir m.a.:

„Hugmyndin að baki tillögunni lýtur að því að boðið verði upp á nýja tegund afþreyingar fyrir ferðamenn þar sem tveir undirstöðuatvinnuvegir þjóðarinnar tengjast saman, þ.e. ferðamennska og sjávarútvegur. Um yrði að ræða sérstaka tegund ferðamennsku sem gerði ferðamönnum kleift að kynnast landi og þjóð betur og upplifa og komast í návígi við eiginlega atvinnustarfsemi hér á landi. Ferðamennska af þessu tagi getur styrkt dreifðari sjávarbyggðir og opnað frekari möguleika til tekjuöflunar. Hún er t.d. stunduð á Ítalíu og í Suður-Frakklandi og gengur þar undir nafninu pescaturismo.

Flutningsmenn telja rétt að ríkisstjórnin kanni framangreint og undirbúi viðeigandi breytingar á lögum og reglum í samráði við hagsmunaaðila og stofnanir, t.d. Landssamband smábátaeigenda, Samgöngustofu og Samtök ferðaþjónustunnar. Huga þarf að ýmsum atriðum í þeirri vinnu, svo sem leyfisveitingum, gjaldtöku og öryggismálum. Rétt er að benda á að nýjung sem þessi gæti byrjað sem tilraunaverkefni til ákveðins tíma, t.d. þriggja ára.“


 

efnisyfirlit síðunnar

...