Fiskistofnar og fallvötn - Landssamband smábátaeigenda

Fiskistofnar og fallvötn

Gjaldtaka fyrir þjóðarauðlindir 

Fiskistofnar og fallvötn

Er yfirskrift greinar eftir Halldór Ármannsson sem birtist í Fiskifréttum 3. mars.Það er forvitnilegt að sjá þegar bornir eru saman þeir þættir sem réttlæta gjaldtöku fyrir þjóðarauðlindir hve veik rök eru fyrir málflutningi talsmanna fyrir veiðigjaldi á sjávarútveg.

Til þess að gera samanburð langar mig að bera saman tvær mest umtöluðu auðlindir okkar, sem eru fiskurinn í sjónum sem verður að mat, og fallvötnin sem breytt er í orku eða rafmagn.

Hvorugt verður að verðmætum nema lagt sé í fjárfestingar, annars vegar af hálfu ríkisins og hins vegar af hálfu einkarekinna fyrirtækja með eigin framlagi.

Halldór  Á.jpg

Fiskistofnarnir 

Í stjórnarskránni kemur fram að fiskurinn í sjónum sé sameiginleg auðlind og er það að mörgu leyti rétt. Fiskistofnarnir eru endurnýjanlegar auðlindir sem þarf að nýta með ábyrgum hætti. Veiðunum er stjórnað með því að úthluta aflaheimildum á grundvelli hlutdeilda til nýtingar. Hlutdeild hvers og eins útgerðaraðila er því andlag til viðmiðunar veiðigjalds og reiknað út í krónutölu fyrir hvert veitt kíló.
Fiskurinn syndir í sjónum og það þarf skip eða báta til þess að geta verið á sjónum við veiðar. Síðan þarf sértæk veiðarfæri allt eftir því hvaða fisktegund er verið að reyna að sækja. Og auðvitað þarf sjómenn til þess að stjórna skipunum  og bátunum og sjá til þess að aflinn komi um borð í skipið og sé rétt meðhöndlaður.  Þá þarf hvert og eitt skip að skila ítarlegum skýrslum um veiðarnar sem nýttar eru í þágu rannsókna hjá Hafrannsóknastofnum, sem nýtast þjóðinni í formi sjálfbærni veiðanna.

Ríkið kemur ekki að rekstri útgerðanna nema í formi gjalda og stjórnunar.

Valin er sú leið 
sem veldur hvað 
mestri misskiptingu 
innan sjávarútvegsins

Fallvötnin 

Ef við tökum aðra auðlind sem er fallvatn sem oft er nýtt sem hreyfiorka til að framleiða rafmagn, þá er ekki eins og þeir aðilar sem nýta rafmagnið borgi fyrir magn lítra af vatni, heldur er borgað fyrir mælda kílóvattstund af rafmagni.
En til þess að það geti orðið þarf ríkið að láta reisa virkjanir, spennuvirki og dreifikerfi til þess að koma afurðinni, efninu, orkunni til neytenda. Þá fyrst er afurðin komin á það stig að almenningur geti nýtt fallvatnið og ríkið búið að leggja í mjög mikinn kostnað til þess að gera afurðina nýtanlega. Landsvirkjun heldur utan um virkjanir og dreifikerfi Landsnets og sér um að innheimta og ákveða verð á rafmagni sem notendur greiða fyrir. Af því ég best veit greiðir Landsvirkjun ekkert auðlindagjald til ríkisins fyrir nýtingu fallvatnsins sem er ein af mörgum auðlindum landsins.


Sérstaða stórútgerðarinnar 

Þrátt fyrir yfirlýsingar stjórnarandstöðu um að útgerðinni hafi verið gefinn milljarða afsláttur á veiðigjöldum þá er raunin sú að í bolfiski er hækkunin um 
15% á fiskveiðiárinu 2015/2016.

Samþjöppunin sem er orðin í greininni er umtalsverð og það þrátt fyrir yfirlýsingar stjórnmálaflokkanna sem eru við stjórnvölinn um að styðja skuli við minni útgerðirnar og spornað gegn samþjöppun í greininni.  Staðan er þannig að það vottar fyrir uppgjöf minnstu útgerðanna vegna gríðarlegs aðstöðumunar, stóraukinnar gjaldtöku og hækkunar á flestum gjaldaliðum.
Stórútgerðin hefur þá sérstöðu að gera magnkaup hvað varðar marga útgerðaliði og nær þar af leiðandi lægri verðum í innkaupum og hagstæðari fyrirgreiðslu hjá lánastofnunum. Þá hefur hún vinnsluna á bak við sig og einnig þann aðstöðumun að getað vigtað og skilað þeim vigtartölum sem rúmast innan ramma endurvigtunar. Þar að auki er verðmyndunin á fiskinum ákvörðuð af Verðlagsráði og miðast út frá meðalverði undanfarinna mánaða. 


Skattlagning ofurhagnaðar

Það ætti að vera auðveld leið að skattleggja þau fyrirtæki sem skila ofurhagnaði í sjávarútvegi eins og öll önnur fyrirtæki sem skila ofurhagnaði.
En sú leið er ekki farin, heldur er sú leið valin sem veldur hvað mestri misskiptingu innan sjávarútvegsins. Litlu og meðalstóru fyrirtækin, sem eiga hvað erfiðast með að fóta sig, eru viðkvæmari fyrir veiðigjöldunum og öðrum gjöldum sem sífellt eru að aukast. 


Höfundur er formaður Landssambands smábátaeigenda.  

efnisyfirlit síðunnar

...