Vopnfirskir grásleppusjómenn ósáttir - Landssamband smábátaeigenda

Vopnfirskir grásleppusjómenn ósáttirÍ áratugi hafa grásleppusjómenn á Vopnafirði verið í viðskiptum við Vigni Jónsson hf á Akranesi sem frá 2013 hefur verið í eigu HB Granda hf.  Fyrirtækið hefur keypt af þeim grásleppuhrogn og frá því markaður opnaðist fyrir grásleppuna til Kína hefur henni verið bætt við.


Á síðustu vertíð var Vopnafjörður með næst mestan afla allra hafna á landinu.
Aflinn var sá mesti í árararaðir, 470 tonn sem jafngilti um 1000 tunnum af fullverkuðum hrognum.  Aflaverðmæti var um 100 milljónir.


Grásleppusjómenn funduðu um komandi vertíð þann 14. mars sl.  Á fundinum kom fram óánægja með að engin verð höfðu verið reifuð af hálfu kaupanda.   Þeim skilaboðum var komið til hans að sjómenn ætluðust til þess að þeim yrði tilkynnt um verð áður en vertíð hæfist.  Þeir voru á einu máli um að verðið mundi ráða ákvörðun þeirra um veiðimagn á væntanlegri vertíð.

Fyrr í dag hafði forsvarsmaður Vignis Jónssonar hf samband við grásleppusjómenn.  Hann tilkynnti þeim verðlækkun frá því í fyrra.  Verðið var langt undir væntingum grásleppusjómanna. Viðbrögð vopnfirska grásleppusjómanna eru á einn veg að fresta upphafstíma vertíðarinnar um óákveðinn tíma.   

 
Vopnfirskir grásleppusjómenn skora á aðra grásleppusjómenn að fara að dæmi þeirra og sína samstöðu og hafna þeirri ætlun framleiðenda að gera grásleppu að lágvöruafurð.   Grásleppan ætti það ekki skilið.


70.jpg

 

efnisyfirlit síðunnar

...