Ekkert samráð - frekar en venjulega - Landssamband smábátaeigenda

Ekkert samráð - frekar en venjulega

Borist hefur eftirfarandi fréttatilkynning frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu:

„Í morgun undirritaði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra reglugerð 
um breytta tilhögun við úthlutun aflaheimilda á yfirstandandi fiskveiðiári.

Breytingin felst í því að búinn verður til nýr 3000 tonna pottur aflaheimilda
(í þoskígildum talið) sem eingöngu er ætlaður gömlum trébátum og -skipum.“ 


Í umsögn með reglugerðinni segir m.a.:

„Því miður er það staðreynd að Íslendingar hafa haldið illa á málum varðandi varðveislu og viðhald gamalla trébáta og -skipa sem haldið var og er til fiskveiða. Þess eru fjölmörg dæmi að glæsilegum fleyjum hafi verið varpað á eldkesti til hátíðarbrigða. Þá ber að minnast óbætanlegs tjóns er varð árið 1993 þegar börn að leik kveiktu í tveimur stórmerkilegum gömlum trébátum í
vörslu Þjóðminjasafnsins.“

Screen Shot 2016-04-01 at 12.32.59.jpg
Þar segir ennfremur:

„Ljóst er að áhugi er meðal landsmanna til að varðveita sögu íslenskra báta og skipa. Því hefur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið ákveðið að fara þá leið, til að örva menn til dáða, að stofna sérstakan pott með aflaheimildum þeim til handa. Þegar bátur hefur fengið haffærnisskírteini - sem mun njóta sérstakra undanþága sem og að mjög strangar kröfur verða gerðar varðandi endurbyggingu og uppgerð - getur viðkomandi sótt um úthlutun úr sjóðnum. Reglan verður sú að því eldri sem bátar eða skip eru og því minni, fá þeir/þau hlutfallslega meiri úthlutun.

Aflaheimildir í pottinn verða færðar frá uppsjávarskipum og togurum, ásamt því að aflaheimildir Færeyinga og Norðmanna innan íslenskrar efnahagslögsögu verða skertar vegna þessa.“

Að öðru leiti vísar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið í reglugerð nr. 0103/2016 og umsögn með henni.“


Ekkert samráð

Landssamband smábátaeigenda undrast mjög að á engu stigi málsins var haft hið minnsta samráð við félagið, þrátt fyrir að það snúi fyrst og fremst að gömlum smábátum. 

LS er kunnugt um að sjávarútvegsráðherra Færeyja, Høgni Hoydal vissi ekki af þessu fyrr en hann sá tilkynningu á vef ráðuneytisins. Hann hefur þegar mótmælt kröftuglega.

Per Sandberg, sjávarútvegsráðherra Noregs, sagði í viðtali við Norska ríkisútvarpið (NRK) í morgun að veiðiheimildir Íslendinga innan norskrar lögsögu yrðu að sjálfsögðu endurskoðaðar í ljósi þessara frétta.

Tæpast þarf að taka fram hvernig Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) brugðust við, en þau hafa þegar óskað eftir neyðarfundi með sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Landssamband smábátaeigenda getur tekið undir gagnrýni þessara aðila, að tímasetning reglugerðarinnar er afar óheppileg.     
Screen Shot 2016-04-01 at 09.53.15.jpg
Einhverjir eru nú þegar farnir að hugsa sér gott til glóðarinnar 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...