Fundur LS með sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra - Landssamband smábátaeigenda

Fundur LS með sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra

Nýlokið er fundi forsvarsmanna LS og Gunnars Braga Sveinssonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.  Aðalefni fundarins var að ræða um aflaviðmiðun til strandveiða sem hófu í dag sitt áttunda tímabil.

Á fundinum fór LS yfir kröfu sína um hækkun aflaviðmiðunar í þorski um 2.000 tonn.  Með henni yrðu tryggðar samfelldar strandveiðar allra veiðisvæða mánudag - fimmtudags þá fjóra mánuði sem veiðarnar eru heimilar.  Þá áréttaði LS ályktanir svæðisfélaga sem skorað hafa á ráðherra að draga til baka skerðingu aflaviðmiðunar á svæði D um 200 tonn.

Áætlun um veiðimagn er þó alltaf varhugavert að setja fram, eins og dagurinn í dag sýnir ágætlega, 375 eigendur strandveiðibáta tilbúnir að fara á sjó.  Kaldaskítur olli því hins vegar að fjölmargir komust ekki á miðin.  Þá er útlitið ekki gott fyrir næstu daga, bræla kortunum.  LS telur að með hækkun aflaviðmiðunar muni sókn verða auðveldari, ekki þurfi að sperra sig í róður vegna þess að stöðvun veiða sé fyrirsjáanleg það sem eftir lifir þann mánuðinn.  Þá gefi aukið aflamagn til strandveiða einnig færi til að opna fyrir veiðarnar í apríl og september.


LS lagði mikla áherslu á að hér væri sanngjörn krafa á ferðinni sem studd væri ályktunum margra bæjarfélaga.  Útgefinn heildarafli í þorski væri nú 49% hærri en hann var 2011.  Hækkun aflaviðmiðunar í þorski til strandveiða þar sem 400 tonna aukning nú væri meðtalin gæfi hins vegar aðeins 18% aukningu á sama tímabili.   Verði tillaga LS samþykkt nemur aukningin 42%.


Fundur LS og ráðherra var á jákvæðum nótum og ekki við öðru að búast en að félagið njóti skilning hans á ábendingum og kröfum sem það hefur barist fyrir.

DSC01531.jpg
Á leið á miðin frá Vestmannaeyjum

 

efnisyfirlit síðunnar

...