Tveir dagar eftir á D-svæðinu - Landssamband smábátaeigenda

Tveir dagar eftir á D-svæðinu
Tilkynnt hefur verið um stöðvun veiða á svæði D.  Aðeins verður heimilt að róa í tvo daga í næstu viku, mánudag og þriðjudag.   Frá og með miðvikudeginum 25. maí verða strandveiðar óheimilar á svæði D og stendur bannið til mánaðamóta.


Samkvæmt nýjustu aflauppfærslu strandveiða á eftir að veiða 49,8 tonn af aflaviðmiðun í maí.  Í gær voru alls 107 bátar sem réru á svæðinu sem er met í fjölda í mánuðinum og lönduðu þeir alls 54 tonnum.


Mikil fjölgun hefur orðið á strandveiðibátum á D-svæði frá því í fyrra.  Nú eru 113 bátar með virk leyfi en voru aðeins 79 á sama tíma í fyrra.   Það er þó ekki aðeins fjölgun báta sem veldur aukningu í afla, heldur „er fiskur út um allan sjó, miklu meira en í fyrra sem var þó gott ár“, eins og aflakóngur sl. tveggja ára Hólmar Hallur Unnsteinsson á Huldu SF orðaði það.  Hólmar sagði mikinn áhuga á strandveiðum frá Hornafirði.  „Í fyrra vorum við aðeins 8 en nú erum við 18 sem róum héðan og ánægjan skín úr hverju andliti“, sagði Hólmar í stuttu spjalli við LS. 


Meðaltalsafli í róðri á svæði D er nú 632 kg á móti 509 kg í fyrra.  Heildaraflinn er kominn í 420 tonn en var aðeins 157 tonn að loknum 10 dögum á síðasta ári.  


Af þessari samantekt sést glöggt hversu nauðsynlegt það er að sjávarútvegsráðherra rétti hlut svæðisins með því bæta þar við 200 tonnum sem svæðið var skert um í upphafi þessa strandveiðitímabils.    

Screen Shot 2016-05-20 at 16.00.56.png
 

efnisyfirlit síðunnar

...