Hvað skýrir lægri meðalþyngd? - Landssamband smábátaeigenda

Hvað skýrir lægri meðalþyngd?
Veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunar í þorski

Hvað skýrir lægri meðalþyngd?


er yfirskrift greinar eftir Örn Pálsson sem birtist í Fiskifréttum 15. júní.


Fullyrða má að tillaga Hafrannsóknastofnunar um heildarafla í þorski á næsta fiskveiðiári hafi komið flestum á óvart.  Ráðgjöf stofnunarinnar er 244 þúsund tonn, aukning um 5.000 tonn eða 2,1% sem er mun minna en flestir sem fylgjast með þessum málum höfðu búist við.

Í Fiskifréttum er fastur dálkur Karlinn í brúnni.  Þar er spjallað við skipstjóra sem eiga það sammerkt fylgjast með öllu því sem er að gerast í sjónum.  Þar hefur komið fram að þeir sem eru á þorskveiðum telja þorskstofninn sterkan og þorskinn vel haldinn sem gefi ástæðu til að veiða meira.
Halldór Gestsson skipstjóri á Sighvati GK:  „Ég held að ástandið á þorskinum hafi sjaldan verið betra.  Mjög góð veiði var fyrir norðan í haust og þorskurinn í góðum holdum enda mikið æti fyrir norðan, bæði síld og loðna“. (28. apríl 2016)
Screen Shot 2016-06-16 at 11.27.23.png


LS leggur til 273.000 tonn

Landssamband smábátaeigenda fundaði með sjávarútvegsráðherra 14. júní sl.  Þar fór LS fram á að ráðherra mundi heimila 273 þús. tonna þorskafla á næsta fiskveiðiári sem er 12% meira en Hafró leggur til.  Þar sem slíkt mundi þýða hærra veiðihlutfall en aflaregla segði til um mundi rökstuðningur byggja á að verið væri að rétta af kúrsinn, veiða helming þess sem skilið hefði verið efir á undanförnum 5 árum þar sem veiðihlutfall hefði verið undir 20%.  Einnig væri hægt að efast um mælingar til útreikninga á meðalþyngd og því rétt að meta veiðistofninn eftir meðalþyngd úr afla.  Niðurstaða beggja þessara þátta gæfi 273 þús. tonn.


Veruleg vonbrigði

Það olli undirrituðum verulegum vonbrigðum að ekki er gerð tillaga um meiri heildarafla í þorski.  Væntingar sem gefnar voru fyrir ári og niðurstöður úr haustralli eru að engu orðnar.  Bæði hrygningar- og viðmiðunarstofn mælast nú lægri en í fyrra.  Það gerist á sama tíma og veiðihlutfall hefur aldrei verið lægra sbr. meðfylgjandi töflu sem unninn er upp úr tölum úr skýrslunni.
  
Veiðihlutfall
(úr skýrslu Hafró 2016)

Screen Shot 2016-06-16 at 11.11.14.png

Myndir sem hér fylgja sýna stærð viðmiðunarstofns og hrygningarstofns fyrir árið 2016.  

Úr skýrslu Hafró 2015:

Screen Shot 2016-06-13 at 19.38.05.png
                             Úr skýrslu Hafró 2016:

Screen Shot 2016-06-13 at 19.47.34.pngFarið var að tillögum stofnunarinnar um 239 þús. tonna aflamark, veiðistofn yrði þá 1371 þús. tonn og hrygningastofn 660 þús. tonn.  Í skýrslunni sem út kom 9. júní sl. blasa hins vegar við mun lægri tölur; 1241 fyrir veiðistofn og 464 fyrir hrygningarstofn.

Hefði spá stofnunarinnar frá í fyrra gengið eftir hefði tillaga Hafró um heildarafla í þorski fyrir næsta fiskveiðiár farið yfir 270 þús. tonn.  Þá værum við að tala saman eins og einn góður orðaði það.  Mismunur upp á 25 - 30 þús. tonn 15 - 18 milljarðar í útflutningsverðmæti, það munar um minna.
Screen Shot 2016-06-16 at 11.25.54.png


Hver er skýringin?

Hvaða skýringu gefur Hafrannsóknastofnun á þessum mikla mismun?

Landssamband smábátaeigenda leitaði svara hjá stofnuninni.

Varðandi 30% lækkun á hrygningarstofninum er helsta ástæðan sú að hlutfall kynþroska í hverjum aldursflokki hafi mælst nokkuð lægra í ár heldur en vorið 2015 auk þess væri meðalþyngd yngri aldurshópa þorsksins lægri.

Orsakir þess að viðmiðunarstofn mældist lægri en spáð var væri að finna í lægri meðalþyngd hjá yngstu árgöngunum frá 5 ára (2011 árgangur) og niður úr.  

Segja má að þessar niðurstöður hafi komið öllum í opna skjöldu bæði sérfræðingum Hafrannsóknastofnunar og sjómönnum þar sem meira var af loðnu í mögum þorsks minni en 80 cm en mælst hafði 2015 og sjómenn á einu máli um að þorskurinn væri vel haldinn.  Í svari stofnunarinnar segir um orsakir þessa:  „Því miður höfum við ekki skýringu á þessari lækkun.“

Eins og áður sagði er hér um milljarða hagsmuni að ræða og því mikilvægt að einhverjar skýringar komi fram áður en ráðherra tekur ákvörðun um heildarafla fyrir næsta fiskveiðiár.  Í bréfi LS til ráðherra var þess farið á leit að hann mundi óska eftir sérstakri athugun á vormælingunni þar sem leitað yrði skýringa á orsökum þessa. 

Höfundur er framkvæmdastjóri
Landssambands smábátaeigenda
 

efnisyfirlit síðunnar

...