Makrílveiðar smábáta verði frjálsar - Landssamband smábátaeigenda

Makrílveiðar smábáta verði frjálsar
Fundur var haldinn í stjórn LS 19. ágúst sl.  Þar var m.a. fjallað um þá stöðu sem upp er komin í makrílveiðum smábáta.  Frá því sjávarútvegsráðherra ákvað að stjórna veiðum smábáta með aflamarki hefur jafnt og þétt dregið úr áhuga smábátaeigenda á að stunda veiðarnar.  Nú er svo komið að aðeins 37 smábátar eru á makrílveiðum.  Afli hjá þeim hefur verið með miklum ágætum, meðaltalið hærra en nokkru sinni.  Þegar síðustu tölur voru skoðaðar höfðu þeir veitt alls 3.166 tonn eða að meðaltali 86 tonn á bát.Á fundinum komu fram áhyggjur yfir hversu fáir bátar væru farnir á veiðar, en hins vegar almenn ánægja með hversu vel gengur hjá þeim sem eru byrjaðir.  Það er aftur á móti deginum ljósar að nægar veiðiheimildir eru til staðar í smábátakerfinu (flokki línu og handfærabáta) og því engin ástæða til að stjórna þeim með aflamarki.  Þeirri skoðun var fylgt eftir með eftirfarandi áskorun til sjávarútvegsráðherra:


  
„Stjórn LS skorar á sjávarútvegsráðherra 
að gefa makrílveiðar smábáta nú þegar 
frjálsar.

Greinargerð: 
Samkvæmt upplýsingum frá Fiskistofu eru veiðiheimildir smábáta 
10.018 tonn, þar af úthlutað 8.018 tonnum til 188 báta og 2.000 
tonn í bráðabirgðaákvæði sem merkt er smábátum.  Alls hafa 33 
bátar hafið veiðar og er afli þeirra nú alls 2.764 tonn.
Breytingin kæmi í veg fyrir stöðvun veiða þeirra báta sem nýta sitt 
aflamark með veiðum.   

Samþykkt á fundi stjórnar LS þann 19. ágúst 2016.“


Makríll Emilía.jpg
 

efnisyfirlit síðunnar

...