Hagræðing fyrir hvern? - Landssamband smábátaeigenda

Hagræðing fyrir hvern?
Á Sprengisandi á Bylgjunni sunnudaginn 25. september sl. var rætt við Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins.  Í viðtalinu vék Bjarni að frétt sem hann hlustaði á sl. sumar þar sem rætt var um strandveiðar, sem hann sagði nauðsynlegan glugga á kerfinu.  Smábátaútgerðarmenn á Suðurlandi hafi mótmælt því að 200 tonn hefðu verið tekin af þeirra svæði og þau færð á annað veiðisvæði. 


Í framhaldi af fréttinni hefði hann farið að velta fyrir sér hagræðingu í sjávarútvegi undanfarinna ára.  Komið hefði fram að 120 bátar væru á strandveiðisvæðinu og samanlagt veiddu þeir 1200 tonn.  Þetta magn hefði verið í lófa lagið að veiða á einum línubát, í stað þess að gera út 120 báta, 120 vélar, 120 menn og konur til að ná þessum afla.


Í framhaldi af þessari líkingu er rétt að velta fyrir sér hvort það sé skoðun fjármálaráðherra að hagræðing fyrir þjóðina felist í að nytjastofnar okkar verði nýttir af sem fæstum bátum?  

Screen Shot 2016-09-27 at 19.15.58.png

Eru skilaboðin til íbúa hinna dreifðu byggða að þeir eigi að afsala sér strandveiðum til örfárra aðila í nafni hagræðingar?  Verða af hinu dásamlega mannlífi sem þær bera með sér, horfa upp á ónýtt hafnarmannvirki og menn skammast í hvor öðrum að geta ekki farið á sjó.


Á strandveiðum á nýliðnu sumri voru 664 bátar.  Á bakvið hvern bát er fólk; fjölskylda, vinir, og einstaklingar, sem ákveðið hafa að stunda sjálfstæðan atvinnurekstur - útgerð í 4 mánuði á ári.  Útgerð sem háð er dugnaði og áræðni þess sem rær viðkomandi bát.  


Afkoma hverrar útgerðar fer í að greiða kostnað af veiðunum og laun þess sem rær.  Þeir 120 aðilar sem ráðherra nefndi voru allir reiðubúnir að stunda strandveiðar frá 1. maí til 31. ágúst.  Væntanlega hefur útgerð línubátsins sem ráðherra nefndi einnig verið tilbúin til verkefnisins að veiða á einu ári 1.200 tonn.


Undirritaður hvetur þann sem kominn er á þennan stað í lestri þessarar örgeinar að velta fyrir sér spurningunni:   

Hagræðing fyrir hvern?
Örn Pálsson

Strandveiðisjómenn í Hrollaugi 1 (1).jpg

 

efnisyfirlit síðunnar

...