Hrollaugsmönnum heitt í hamsi - Landssamband smábátaeigenda

Hrollaugsmönnum heitt í hamsi

Aðalfundur Hrollaugs var haldinn á Höfn 27. september sl.  Ágæt mæting var á fundinn og var mikill baráttuhugur í fundarmönnum.  Tilfinningarík umræða varð um ákvörðun sjávarútvegsráðherra að skerða veiðiheimildir á D-svæði í upphafi strandveiða sl. vor.  Ráðherra var gagnrýndur fyrir að sýna ekki heilindi í að skoða málið í nýju ljósi þegar forsendur sem hann gaf sér brustu.   Það hefði verið auðvelt að auka við heimildir til strandveiða um þau 200 tonn sem hann illu heilli færði af svæðinu.


Í fjölmörgum ályktunum sem fundurinn sendi frá sér er fyrirferð málefna strandveiðimanna mest.  Hrollaugur telur að ráðherra sé vísvitandi að reyna að egna mönnum saman með því að kasta brauðmolum inn á einstök veiðisvæði.   Ályktun þessu tengd er svohljóðandi:


„Félagsmenn í smábátafélaginu Hrollaugi á Hornafirði sem stunda strandveiðar á svæði D mótmæla með öllu þeim hugmyndum frá atvinnuvega-  og nýsköpunaráðuneytinu um að lengja strandveiðitímabilið eingöngu á svæði D en ekki á öðrum svæðum.


          Greinargerð
Við lítum svo á að hugmyndir um að lengja tímabil strandveiða á einu svæði en ekki öllum sé eingöngu sett fram til að sundra strandveiðimönnum sem hafa þá sameiginlegu kröfu í gegnum Landssamband smábátaeigenda að fá að stunda strandveiðar 4 daga í viku allt strandveiðitímabilið frá 1. maí - 31. ágúst.  Öll pólitísk skemmdarverk á strandveiðikerfinu sem einungis eru sett fram til að ala á sundrungu og óeiningu meðal strandveiðimanna  verður litið mjög alvarlegum augum. 
 
Það er augljóst hvaða breytingar þarf að gera á strandveiðikerfinu til þess að bæta það og gera það arðvænlegt fyrir þær útgerðir sem inni í því eru.  Það veit ráðuneytið jafn vel og við því þar sem við höfum reglulega bent á það.  Krafan er einföld, 4 dagar í viku allt strandveiðitímabilið á öllum svæðum fyrir alla strandveiðimenn.  

Hrollaugur hvetur strandveiðimenn um land allt, að mótmæla kröftuglega hverslags gjörningum sem miða að því að koma í veg fyrir samstöðu okkar um gott og öflugt strandveiðikerfi þar sem hver og einn strandveiðimaður vegur jafnt.   Það eru pólitísk öfl þarna á ferð sem eru að reyna að grafa undan og sundra okkur.  Stöndum saman - höfnum öllum brauðmolum sem hent er í suma okkar.

Hrollaugur afþakkar frekari afskipti núverandi sjávarútvegsráðherra og ríkisstjórnar af málefnum strandveiðimanna.   Eins og þú veist Gunnar Bragi þá höfum við sagt þér upp störfum sem sjávarútvegsráðherra.  Við treystum þér ekki.“Strandveiðisjómenn í Hrollaugi 1.jpg

Samstaða
 

efnisyfirlit síðunnar

...