Kynning nýkjörins formanns LS, Axels Helgasonar - Landssamband smábátaeigenda

Kynning nýkjörins formanns LS, Axels Helgasonar

Við framboð til formanns Landssambands smábátaeigenda fluttu frambjóðendur ræðu þar sem þeir kynntu sig og áherslur sínar.
Framboðsræður voru á dagskrá aðalfundar 3 klst. fyrir kosningu til formanns.

Ræða Axels:

wSjavarutegur_280916_JSX6351.jpg
„Axel Helgason heiti ég og bý í Reykjavík og er í sambúð með Sunnu Rós Svansdóttur.  Saman eigum við 2 unga drengi, upprennandi sjómenn.  Ég er menntaður rafeindavirki, en hef aldrei starfað við það beint.
Áhugi á bátum byrjaði þegar ég hóf störf við bátasmíðar árið 1987 þá 17 ára, en sjómennsku kynntist ég fyrst þegar ég var nokkrar vertíðir við neta- og nótaveiðar í Alaska  uppúr 1990.  Árið 2004 keypti ég grásleppubát og hef gert út á grásleppu í Breiðafirði, framan af meðfram húsasmíði og síðar bátasmíði og viðgerðum á bátum. Árið 2012 bætust við makrílveiðar.Áður en ég tók ákvörðun um að bjóða mig fram til formanns Landssambands smábátaeigenda las ég yfir samþykktir félagsins til að reyna að átta mig í hverju starf formanns felst aðallega og 2. greinin fer ágætlega yfir það.  Einnig átti ég gott samtal við Halldór, sem gaf mér góða innsýn í starfið.  Nái ég kjöri mun ég beita mér fyrir því að sameiginlegir hagsmunir smábátaeigenda verði ávallt hafðir að leiðarljósi í mínum störfum og að fylgja eftir samþykktum aðalfundar gagnvart stjórnvöldum og stofnunum.  Ég ætla mér áfram gera út á grásleppu og makríl þó svo ég nái kjöri.Mér finnst rétt að upplýsa ykkur í stuttu máli um mína persónulegu skoðun í nokkrum málaflokkum sem hafa verið teknir fyrir og afgreiddir hjá sjávarútvegs- og allsherjarnefnd hér á aðalfundinum.  En ég heiti ykkur því að vinna eingöngu eftir samþykktum fundarins og félagsins í heild nái ég kjöri.


   • Ég er á móti kvótasetningu á grásleppu en ég er hlynntur því að hægt verði að nota tvö leyfi á einn bát ef tryggt er að leyfin tvö verði ekki að einu leyfi og að tekið verði fyrir frekari „ræktunarstörf" á grásleppuleyfum.

   • Ég er hlynntur byggðakvóta, en tel að stoppa þurfi upp í smugur til að framselja hann.

   • Uppboðsleið á aflaheimildum er mörgum stjórnmálamönnum hugleikinn, en ég hef ekki séð neitt frá þeim um útfærslur og get því ekki tekið afstöðu til þessarar leiðar.   Ég mundi vilja gefa þeim tækifæri til að útfæra þessa leið.

   • Ég er hlynntur ályktunum LS um strandveiðar að mestu leyti en hefði sjálfur kosið að hægt yrði að velja sér þá 16 daga í mánuði sem menn mega róa.

   • Ég vil jafna óframseljanlega útdeilingu á makríl að norskri fyrirmynd, þegar að smábátar eru komnir með ásættanlega hlutdeild.   En það þarf að leysa ákveðin vandamál sem felast í því að fjölga bátum við makrílveiðar á þessum tiltölulega litlu blettum sem hann er að gefa sig á, við Keflavík og Snæfellsnesið.  T.d. væri hægt að útdeila 30% meira til þeirra sem leituðu nýrra miða utan skilgreindra svæða.

Það er mín skoðun að eitt stærsta hagsmunamál smábátasjómanna í dag er að berjast fyrir stækkun pottsins og að allir geti sótt í hann.  Í þeirri báráttu höfum við mörg góð spil á hendi, sérstaklega ef vel tekst til að markaðssetja makrílinn út frá því hve umhverfisvænar veiðarnar eru og hversu góða möguleika við höfum á að meðhöndla hann sem hágæða hráefni.  En það hefur því miður verið misbrestur á því og megnið af handfæramakrílnum fer í magnsölu með togaraveiddum makríl.  Á nýlokinni vertíð voru aðeins 3 vinnslur að kaupa af okkur makríl og ein af þeim er með u.þ.b. 70% af heildinni.  Þetta er áhyggjuefni og þarf lítið að bregða út af til að smábátar gætu lent í þeirri stöðu að losna alls ekki við aflann.


Skoðunarmál smábáta eru mér hugleikin og ég vil vinna að því að við tökum upp svipað kerfi og er í Noregi, þar sem sjálfsskoðun er heimil með ákveðnum takmörkunum og skyndiskoðunum.  Mér skilst að einhver vinna hafi farið fram við þetta og ég mun fylgja þeirri vinnu fast eftir.

AIS kerfið hefur marga kosti, en ennþá eru blind svæði og bæta þarf þar úr.  En líka þarf að breyta kerfinu þannig að þeir sem kjósa að vera ekki sjáanlegir öðrum en Skyldunni hafi þann valkost.  Það er tæknilega framkvæmanlegt og fyrir því mun ég beita mér ef það er áhugi fyrir því.


Sorglegt að horfa upp á ufsann brenna inni og ég legg áherslu á að fylgja eftir kröfu um að við fáum að nýta það sem óveitt er af ufsa fyrir lok fiskveiðiársins. 


Að lokum,
Ég mundi vilja breyta aðeins tæknilegum atriðum varðandi nefndarstörf.  Tillögur svæðisfélaganna til sjávarútvegs- og allsherjarnefndar hefði ég kosið að sjá flokkaðar eftir málaflokkum fyrir nefndarstörf og að þær væru einnig á pappír fyrir þá sem þess óska.  Einnig að búið verði að draga saman málaflokkana á því skjali sem birtist á skjánum. 


Kæru félagar, þakka áheyrnina og vona að hver sem verður kosinn formaður njóti stuðnings og aðhalds allra félagmanna.  Út á það gengur barátta útgerðarinnar, að við stöndum allir saman sem einn. 


Takk fyrir.“

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...