Blálanga - Hvað er að frétta? - Landssamband smábátaeigenda

Blálanga - Hvað er að frétta?
Í lok ágúst 2013 ákvað þv. sjávarútvegsráðherra að setja þrjár nýjar tegundir í kvóta - blálöngu, litla karfa og gulllax.   Smábátaeigendur gagnrýndu ákvörðun ráðherra varðandi blálöngu þar sem hún hafði í vaxandi mæli fengist sem meðafli.  Kvótasetning hennar væri því ávísun á vandræði.   Það rættist, varla liðinn mánuður af fiskveiðiárinu þegar einn smábátur hafði fengið 7 tonn af blálöngu sem meðafla og engin leið fyrir hann að fá heimildir frá öðrum.


LS lagði til að farin yrði önnur leið til að takmarka veiðarnar.  Tegundin væri að mestu staðbundin og hafi verið ástæða til að vernda hana fyrir ofveiði væri í lófa lagið að setja hömlur á beina sókn í hana og lengja lokanir við hrygningarsvæði suður að Vestmannaeyjum og á Franshól.    LS skoraði á ráðherra að afnema ákvæði reglugerðarinnar um kvótasetningu á blálöngu hið snarasta.  Ráðherra varð ekki við því og bar fyrir sig 9. gr. laga um stjórn fiskveiða þar sem segir eftirfarandi:

„Verði veiðar takmarkaðar skv. 3.gr. á tegundum sjávardýra sem samfelld veiðireynsla er a en ekki hafa áður verið bundnar ákvæðum um leyfðan heildarafla, skal aflahlutdeild úthlutað á grundvelli aflareynslu síðustu þriggja veiðitímabila.“


Á fiskveiðiárinu 2013/2014 var því blálangan kvótasett og hefur verið það síðan.  Aðeins 1.400 tonnum var úthlutað en meðalveiði undanfarinna þriggja ára hafði verið rúm 4.500 tonn.   Helftin af veiðiheimildunum - 41,5% fór til tveggja fyrirtækja, Vísis (28,5%) og Þorbjarnarins.  Alls fengu 244 skip reiknaða aflahlutdeild og voru 24 þeirra sem mest fengu með um ¾ heimildanna.


Í ræðu framkvæmdastjóra LS er hann flutti á aðalfundi félagsins 2013 vakti hann athygli á framangreindu en lauk þessum hluta hennar með eftirfarandi: 

„Þá skora ég á ráðherra að beina sjónum sínum að áðurnefndri 9. gr. áður en ákvörðun um kvótasetningu á makríl verður tekin.  Það þarf t.d. að skilgreina í lögunum um stjórn fiskveiða hvað er átt við með „samfelldri veiðireynslu“.   Makríllinn kom vart inn á veiðislóð smábáta fyrr en á síðasta ári og almennar veiðar hófust ekki fyrr en nú í ár.   Það sama á við íslensku sumargotssíldina, skötusel og löngu, keilu og fyrrnefnda blálöngu.   Ég ítreka að nauðsynlegt er að breyta 9. gr. þannig að svigrúm sé fyrir annars konar veiðistýringu en kvótasetningu þegar hún á ekki við.  Blálangan er hér skýrt dæmi þar um.“


En hvernig hefur nú veiðistýringin gengið á blálöngunni?
Hvernig hefur stofninum reitt af?

Í ástandsskýrslu Hafró fyrir yfirstandandi fiskveiðiár kemur fram að nýliðunarvísitala hefur verið við sögulegt lágmark síðan árið 2010.  Það vekur því óneitanlega athygli að veiði undanfarinna ára hefur verið vel undir ráðleggingum stofnunarinnar um heildarafla.  Því er eðlilegt að spyrja hver skýringin sé á hinu slaka ástandi stofnsins.  Einnig vekur það athygli að Hafró skuli endurtekið ráðleggja heimildir sem eru langt umfram það sem veitt hefur verið. Tölur í óslægðu.

 

Fiskveiðiár

Heimildir

Afli

Óveitt

Ráðgjöf

2012/2013

 

2.999 tonn

     101 tonn

3.100 tonn

2013/2014

2.400 tonn

1.655 tonn

     745 tonn

2.400 tonn

2014/2015

3.308 tonn

1.900 tonn

1.408 tonn

3.100 tonn

2015/2016

2.984 tonn

1.119 tonn

1.865 tonn

2.600 tonn

2016/2017

2.275 tonn

 

 

2.040 tonnScreen Shot 2016-11-22 at 16.37.13.png


 

efnisyfirlit síðunnar

...