Fjölgum veiðidögum - Landssamband smábátaeigenda

Fjölgum veiðidögum
Vannýtt aflaregla gefur svigrúm í strandveiðikerfinu

Fjölgum veiðidögum


Er yfirskrift greinar eftir Örn Pálsson sem birtist í Fiskifréttum í dag 16. febrúar.


 
Landssamband smábátaeigenda hefur hrundið af stað miklu átaki fyrir auknum veiðirétti smábáta til makríl- og strandveiða.  Kröfur félagsins voru mótaðar á aðalfundum svæðisfélaganna síðastliðið haust og staðfestar á 32. aðalfundi LS sem haldinn var dagana 13. og 14. október. Í þessari grein verður fjallað um annan þessara þátta.  

ÖP úr Fiskifréttum.png

Fjórir dagar í viku 

Í strandveiðum er gerð krafa um samfelldar veiðar frá 1. maí - 31. ágúst fjóra daga í viku hverri. Á veiðunum sem fara í hönd og hefjast 1. maí næstkomandi er tilvalið að hrinda breytingunum í framkvæmd.  Miðað við árið 2016 mundu þær hafa eftirfarandi í för með sér fjölgun daga eins og fram kemur í  meðfylgjandi töflu. 

Á síðasta ári nam þorskafli strandveiðibáta 8.555 tonnum. Ætla má að við breytinguna muni hann aukast, en það verður þó ekki í réttu hlutfalli við fjölgun daga. Menn eru sammála um að sjósóknin muni breytast. Aðilar færu ekki á sjó nema hægt væri að sækja góðar veiðislóðir. Spenna um að knýjandi væri að fara í róður í dag því hann væri sá síðasti í mánuðinum yrði úr sögunni.  Eftirfarandi tilkynning í fölmiðlum mundi ekki heyrast lengur: „Síðasti veiðidagur á svæði A, sem nær frá Eyja- og Miklaholtshreppi til Súðavíkur, þetta árið er 12. ágúst. Þá verður veiðum hætti á svæðum B og C þann 13. ágúst.“

Svæði

2016

2017

Fjölgun

A

28 dagar

68 dagar

40 dagar

B

44 dagar

68 dagar

24 dagar

C

50 dagar

68 dagar

18 dagar

D

31 dagar

68 dagar

37 dagarMargvíslegur ávinningur 

Ávinningurinn væri margvíslegur:
Gæði aflans mundi enn aukast 
Nýliðun yrði raunhæfur kostur
Dregið væri úr áhættuþáttum við sjósókn

Auk þessa hefði aukin umsetning í för með sér enn öflugra mannlíf í hinum dreifðu byggðum landsins.  Tekjur þar aukast og þjónustuaðilar fengju enn meira í sinn hlut.  Þá mundu veiðarnar gefa sjómönnum sem lent hafa í uppsögnum vegna hagræðingar og fækkunar skipa tækifæri til að stunda sjóinn áfram.  Fjölgun yrði því áhjákvæmileg á strandveiðum. 


Hvaðan á viðbótin að koma?

Þeir sem eru andvígir kröfum LS spyrja: Hvar á að taka aflann? Að sjálfsögðu er svar Einars Odds Kristjánssonar heitins besta svarið:  „Úr sjónum“.   Það kallar hins vegar á nokkrar skýringar.   

Til að fylgja nýtingarstefnu stjórnvalda í þorski er notast við aflareglu.  Nýtingarstefnan er einn af hornsteinum þess að viðskiptaþjóðir okkar eru sannfærðar um að hér séu stundaðar ábyrgar fiskveiðar. Farið sé eftir viðurkenndri ráðgjöf vísindamanna þar sem markmiðið sé að skila þorskstofninum í betra ástandi til næstu kynslóða heldur en hann er nú í.


Aflareglan vannýtt

Aflaregla gengur út á að árleg veiði sé miðuð við 20% af veiðistofni þorsks. Í skýrslu Hafrannsóknastofnunar frá júní 2016 kemur í ljós að veiði hefur verið undir þessum mörkum frá árinu 2011. Það hefði sjálfsagt verið hið besta mál ef sjómenn hefðu upplifað aflaleysi og að ástand stofnsins væri slakt.  Svo er ekki, sjómenn, vísindamenn þjóðarinnar á vettvangi, eru sammála um að heimila hefði átt meiri þorskveiði.

Með skírskotun í framangreint yrði því ekki á nokkurn hátt verið að fara á svig við aflareglu þótt afli til strandveiða yrði aukinn fyrir tímabilið sem hefst eftir rúma tvo mánuði, hinn 1. maí nk. 

  
Frá árinu 2011 hafa strandveiðar 
setið eftir hvað varðar árlega 
aflalaukningu í þorski. 
Uppsafnaður mismunur er 
um átta þúsund tonn. 

Strandveiðar hafa setið eftir 

Að undanförnu hefur LS kynnt tillögur sínar sjávarútvegsráðherra og atvinnuveganefnd Alþingis. Þeirra er valdið og þeirra er ákvörðunin.  

Í þessu greinarkorni er rétt að benda á að frá árinu 2011 hafa strandveiðar setið eftir hvað varðar árlega aflalaukningu í þorski. Samkvæmt útreikningum LS er uppsafnaður mismunur um átta þúsund tonn. Það er því ekki verið að mismuna öðrum innan stjórnkerfis fiskveiða þótt kröfum LS verði hrint í framkvæmd.


Verðmætið mest í strandveiðimánuðunum

Að lokum skal á það bent að afli strandveiðibáta hefur á undanförnum árum skilað sér afar vel til verðmæta. Þetta kemur fram í tölum Hagstofunnar um aflaverðmæti þorsks á strandveiðimánuðunum - maí, júní, júlí og ágúst. Hæstu verðin eru í þeim mánuðum eins og sést á meðfylgjandi súluriti.  Mikil verðlækkun milli ára er áhyggjuefni og sýnir að brýnt er að auka í strandveiðar þannig að góður hagnaður verði áfram af veiðunum.


Screen Shot 2017-02-11 at 15.11.48 (1).jpg


Screen Shot 2017-02-11 at 15.12.23 (1).jpg


Höfundur er framkvæmdastjóri 
Landssambands smábátaeigenda. 
 

efnisyfirlit síðunnar

...