Grásleppumarkaðir í jafnvægi - Landssamband smábátaeigenda

Grásleppumarkaðir í jafnvægi
Í Fiskifréttum þann 9. febrúar sl. birtist frétt um markað fyrir grásleppuveiðar og horfur á mörkuðum.  

Fréttin birtist hér í heild með leyfi Fiskifrétta.Grásleppumarkaðir í jafnvægi

Mætti auka veiðarnar um 20%


Talið er óhætt að auka grásleppuveiðar í heiminum um 20% á þessu ári. Íslenskir grásleppukarlar gætu því framleitt um 12 til 13 þúsund tunnur af grásleppuhrognum á komandi vertíð. 


Á árlegum upplýsingafundi - LUROMA - um grásleppumál sem haldinn var í London í lok síðustu viku kom fram að grásleppuveiðin í heiminum á síðasta ári hefði skilað 19% minni afla en árið þar á undan. Mestu munaði um samdrátt í veiðum Grænlendinga, að því er Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, sagði í samtali við Fiskifréttir. Upplýsingafundir um grásleppumál hafa verið haldnir 29 sinnum og hefur LS ávallt haft veg og vanda af skipulagningu og stjórn fundanna. 


Heimsveiðin 18 þúsund tunnur

Heimsveiðin á síðasta ári skilaði alls um 18 þúsund tunnum af grásleppuhrognum sem er rúmum 4 þúsund tunnum færra en 2015. Íslendingar voru með tæp 60% af heimsframleiðslunni, eða 10.374 tunnur. Grænlendingar komu þar á eftir með um 5.730 tunnur og um 32% af heildinni. Norðmenn voru með 460 tunnur, Nýfundlendingar með 267 tunnur. Örn sagði að áætlað væri að Danir og Svíar hefðu samanlagt verið með 1.000 tunnur en þau grásleppuhrogn seljast beint til neytenda en fara ekki í framleiðslu kavíars. 

Samdráttur í veiðum á grásleppu á síðasta ári varð mestur í Grænlandi eða um 30%. Veiðin þar skilaði rúmum 8 þúsund tunnum árið 2015. Íslendingar framleiddu um 12.200 tunnur árið 2015 þannig að samdráttur hjá okkur varð 15% á síðasta ári. 


Mætti auka um 20%

„Segja má að veiðarnar á síðasta ári hafi skilað nægjanlegu magni til að anna eftirspurn en þó kom upp sú staða að nokkrir framleiðendur gátu ekki birgt sig upp eins og þeir töldu sig þurfa. Því myndaðist umframeftirspurn í lok vertíðar. Ástæðan er samdráttur í veiðum, einkum á Grænlandi,“ sagði Örn. „Við teljum því að markaðurinn verði í jafnvægi með því að auka veiðarnar í heiminum um 20%. Verði aukningin jöfn hjá öllum veiðiþjóðum ættu grásleppukarlar á Íslandi ekki að lenda í vandræðum með sölu á 12 til 13 þúsund tunnum á árinu 2017.“
Væntingar um verðhækkun
Örn ítrekaði að heimsmarkaðurinn kallaði eftir 21 til 22 þúsund tunnum. Ef veiðin færi umfram það væri það aðeins ávísun á óstöðugleika, verðlækkun miðað við að stærð markaðarins verði óbreytt. 
Á síðasta ári var meðalverð á heilli grásleppu um 155 krónur á kíló hér á landi. Árið 2015 var verðið hins vegar rúmar 200 krónur á kíló. Hér var því um verulegt verðfall milli ára að ræða. Örn var spurður hvort skilyrði væri fyrir verðhækkun á grásleppu í ár. „Menn eru ekki farnir að ræða það ennþá. Grásleppunefnd LS er að meta stöðuna þessa dagana en grásleppusjómenn hafa væntingar um að verðið hækki á vertíðinni.“ 

efnisyfirlit síðunnar

...