Makríll - fá ítrekað 96% af veiðiheimildunum - Landssamband smábátaeigenda

Makríll - fá ítrekað 96% af veiðiheimildunum

Þann 6. apríl sl. var gefin út reglugerð um stjórn makrílveiða íslenskra fiskiskipa 2017.  Reglugerðin er endurtekning á reglugerðum sl. tveggja ára, þar sem smábátum er ætlaður smánarlegur hlutur í heildarveiðinni.  


Makríll á Ströndum.jpg
Hólmavíkurhöfn í ágúst 2014


LS ritaði ráðherra strax bréf þar sem óskað var eftir fundi með honum.  
Stjórn Landssambands smábátaeigenda hefur nú látið sig málið varða og sent frá sér eftirfarandi ályktun:


Stjórn Landssambands smábátaeigenda mótmælir harðlega nýútgefinni reglugerð sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um stjórn makrílveiða íslenskra fiskiskipa 2017.  Reglugerðin tekur í engu tillit til sjónarmiða LS um aukið vægi smábáta í veiðunum.

LS krefst þess að ráðherra endurskoði nú þegar ákvörðun sína og veiti smábátum tækifæri til öflunar veiðireynslu eins og gert var hjá stærri skipum.  Í engu er hægt að una við að skip sem áunnu sér veiðireynslu með frjálsum veiðum, löngu áður en makríll kom á grunnslóð, til þess eins að landa matfiski í bræðslu séu ítrekað verðlaunuð með því að úthluta þeim 96% aflaheimildanna.  Ennfremur að meiri afli en ætlaður er smábátum skuli úthlutað til skipa sem veiddu ekki eitt einasta kíló á síðustu makrílvertíð heldur leigðu frá sér allar sínar heimildir.

Þá er það umhugsunarefni hvers vegna ráðherra metur smábátum ekki til tekna að við veiðar á króka sparast yfir 3 milljónir lítra af díselolíu og andrúmsloftið mundi sleppa við mengun 10.000 tonna af CO2       

Stjórn LS skorar á ráðherra að verða við sanngjarnri kröfu um 16% hlutdeild smábáta í makríl.  
  

 

efnisyfirlit síðunnar

...