Strandveiðar - 200 tonnum bætt við - Landssamband smábátaeigenda

Strandveiðar - 200 tonnum bætt við
Reglugerð um strandveiðar 2017 hefur verið gefin út.  Engar meiriháttar breytingar eru gerðar frá fyrri reglugerð.  Ein minniháttar breyting er hins vegar gerð þar sem aflaviðmiðun í kerfinu er aukin um 2,2% eða 200 tonn.  Ráðherra ákvað að feta ekki fótspor forvera síns um breytt aflaviðmið milli svæða, heldur að viðbótin færi öll á svæði D sem hafði séð á eftir sama magni í fyrra.  

Í ljósi þess að útgefnum heildarafla í þorski verður ekki náð á yfirstandandi fiskveiðiári hefði það ekki komið á óvart að ráðherra hefði aukið viðmiðun mun meira en hann hefur nú tekið ákvörðun um.  Velta má fyrir sér hvers vegna svo er ekki gert, t.d. að hækka viðmiðun um 2.000 tonn.  Kannski er það vegna nýtingarstefnu stjórnvalda þar sem árlegt viðmið afla er 20% af veiðistofni.  Svigrúmið sé því aðeins 200 tonn.  Hin ástæðan sem nefnd hefur verið er að ráðherra telji rétt að bíða með slíkar ákvarðanir þar til ljóst verður hver afdrif frumvarpanna tveggja verða.

Ólafsvíkurhöfn maí 1996 (2).jpg
Ólafsvíkurhöfn maí 1996


Eins og fram hefur komið er frumvarp um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða til meðferðar hjá atvinnuveganefnd og annað á leiðinni þangað.  Bæði fjalla þau um strandveiðar þar sem lagt er til að kerfinu verði breytt.  Stærsta breytingin á því sviði er að menn fái að veiða í ákveðinn fjölda daga.

Í frumvarpi Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs er gert ráð fyrir nánast óbreyttu kerfi að því undanskildu að veiðidagar verði 12 í hverjum mánuði. 

Í frumvarpi Pírata er hins vegar lagt til að veiðitímabilið verði 8 mánuðir, 1. mars - 31. október og veiðidagar verði 50.

Það er gríðarlega mikilvægt að breytingar verði gerðar á strandveiðikerfinu.  Atvinnuveganefnd mun fjalla um frumvörpin og er það því í hennar höndum hvort lagfæringar nái fram að ganga.

 


 

efnisyfirlit síðunnar

...