311 þúsund tonn af þorski? - Landssamband smábátaeigenda

311 þúsund tonn af þorski?Ekkert svigrúm til að bregðast við óvæntum breytingum

311 þúsund tonn af þorski?


Er yfirskrift greinar eftir Örn Pálsson sem birtist í Fiskifréttum 29. júní sl.  Greinin birtist hér í fullri lengd.


Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur undirritað reglugerð um leyfilegan heildarafla á fiskveiðiárinu 2017/2018.  Reglugerðin tekur til heildarafla í 19 tegundum.  Magn í tonnum talið er alls 509.493, þar af 255.172 tonn þorskur, eða helmingur aflans.


Frádrag vegna veiða erlendra aðila

Tölurnar eru þær sömu og Hafrannsóknastofnun hafði ráðlagt, að undanskildum þorski, ýsu, gullkarfa, löngu og keilu en þar er dregið frá vegna veiða útlendinga hér í lögsögunni.  Í grálúðu er tillaga Hafró í samræmi við ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins, en samkvæmt samkomulagi milli Íslands og Grænlands kemur 56,4% í hlut okkar.

 

Aðrar þjóðir

Hlutdeild

Þorskur
2.400 tonn
0,9%
Ýsa
1.500 tonn
3,6%
Gullkarfi
5.359 tonn
10,5%
Grálúða
10.464 tonn
43,6%
Langa
1.000 tonn
11,6%
Keila
600 tonn
13,7%

Nákvæmt skal það vera, en með þessari aðferð á heildarafli í tegundunum að vera sá sem Hafrannsóknastofnun gerði tillögu um og krafist er af alþjóða samfélaginu eins og gjarnan er hnýtt við.  Rétt er að vekja athygli á að í gullkarfa, löngu og keilu er hér um verulega hlutdeild að ræða sem kemur ekki til úthlutunar aflamarks.  Varðandi grálúðuna er það áhyggjuefni hversu hlutdeild Íslendinga hefur minnkað úr því að vera 75-90% á árabilinu 1980-1990. 


Torsótt leið til aukins afla

Landssamband smábátaeigenda ákvað að þessu sinni að gera tillögu um að heimilt yrði að veiða rúm 311 þúsund tonn af þorski, sem er 20,8% meira en Hafrannsóknastofnun ráðlagði.  Við kynningu á umsögn LS hjá ráðherra hinn 21. júní var spurt hvort félagið hefði verið í sambandi við Hafró þegar ákvörðun var tekin.  Því var játað að ekki hefðu verið haldnir formlegir fundir.  LS hefði fengið hefðbundna kynningu og ynni sínar tillögur upp úr skýrslu stofnunarinnar og samtölum við félagsmenn.  Ekki hefði komið til bréfaskrifta eins og í fyrra vegna efasemda LS um rétt mat á meðalþyngdum, einkum 5 ára þorsks.
ÖP úr Fiskifréttum.png

LS kynnti Hafró tillögur sínar á fundi degi eftir að fundað var með ráðherra.  Þar kom m.a. fram að skilningur stofnunarinnar á aflareglu er skýr, ekkert svigrúm væri heimilað.  Miða skyldi við áætlaðan veiðistofn ársins.  Leiðrétting sem LS lagði til, þ.s. komið hefði í ljós að veiðistofn í þorski 2016 hefði verið vanmetinn, var hafnað.  Ekkert svigrúm væri til staðar til að bregðast við óvæntum breytingum, mistökum, vanmati eða ofmati.  Engar breytingar þess efnis hefðu verið samþykktar við endurskoðun aflareglu sem fram fór árin 2014 og 2015.  Eina sem ráðherra gæti gert, ef hann ætlaði einhverju að breyta, væri að afnema eða leggja til breytingar á aflareglunni.  


Óbreytt aflaregla í áratug  

Við endurskoðun á aflareglu var ekki tekið tillit til athugasemda LS þar sem lagt var til að svigrúm væri gefið þannig að ráðherra hefði möguleika á að taka tillit til sjónarmiða sjómanna, þeirra sem væru á vettvangnum allan ársins hring.  LS var ekki einsamalt að vekja máls á sveigjanleika, þ.s. nefnd sem bar heitið „Samráðsvettvangur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um nýtingu helstu nytjafiska“ kom einnig að því máli.  Skilaði nefndin ítarlegri skýrslu í júní 2011.  

Við afgreiðslu á endurskoðun aflareglu í þorski var ekki minnst á málið á heimasíðu ráðuneytisins, pukrast var með það gegnum ríkisstjórn og því kastað framan í LS að búið væri að afgreiða og samþykkja óbreytta aflareglu til næstu 5 ára. Á slíkt að hafa gerst á fundi ríkisstjórnarinnar hinn 9. júní 2015.  Þannig var þetta mikilvæga málefni samþykkt án umræðu og gagnrýni.  Lokadrög skýrslunnar fengust ekki rædd. 

Skýrslan er dagsett í maí 2015, en LS hafði skilað inn athugasemdum í janúar.  Í skýrslunni var ekki minnst á skýrslu „samráðsvettvangsins“ sem að mínu mati var gríðarlega vel unnin og vönduð.  Fjölmargir þættir nefndir sem vert hefði verið að ræða og taka tillit til við endurskoðun aflareglu og sömu aðilar og undirrituðu endurskoðunarskýrsluna komu að.


Ráðherra í þröngri stöðu

Inn í aflareglu ráðherra sem hann notar til að framfylgja nýtingastefnu stjórnvalda við fiskveiðar og gerð eftir forskrift Hafrannsóknastofnunar eru settar tölur stofnunarinnar þar sem forsendur eru niðurnjörvaðar.  Útkoman er svo stimpluð í höfuðstöðvum Alþjóðahafrannsóknaráðsins í Kaupmannahöfn.  Vísindamenn þar leggja blessun sína yfir framsetningu Hafrannsóknastofnunar sem kemur skilaboðum (ráðgjöf) til ráðherra hvað hann eigi að gera.  Athugið; hvað hann á að gera. 

Framkvæmdavaldið hefur þannig lítið með það að gera hvaða magn eigi að taka úr auðlindinni.  Búið er að framselja allt hvað varðar ákvörðun um heildarafla okkar helstu tegunda.  Svo vikið sé aftur að alþjóðasamfélaginu - þá er reiði þess hótað ef af verður brugðið.

Vísindaleg nálgun, aflaregla og ábyrgar fiskveiðar eru allt þættir sem við uppfyllum betur en margar aðrar þjóðir.  Markaðurinn er sagður kalla eftir því, þó ég álíti að hann kalli fyrst og fremst eftir lægra verði.  Framangreint eru hins vegar þættir sem eiga að tryggja og auka markaðshlutdeild okkar.  Ef marka má fiskverð á mörkuðum í apríl og maí er hæpið að hægt sé að halda því fram að það hafi tekist.  Verð þar er töluvert lægra en styrking krónunnar.

Ekki ætla ég að ganga svo langt að segja að við eigum að kasta þessu fyrir róða.  Við þokumst skref fyrir skref í rétta átt.  Því verður hins vegar að svara hvort við höfum ekki gengið of langt þegar við getum ekki tekið tillit til þess blóma sem nú blasir við um að auka þorskkvótann um meira en 2% í fyrra og 5,6% í ár.

Hrygningarstofn ekki mælst stærri í 57 ár (1960)
Veiðistofn ekki mælst stærri í 37 ár (1980)
Mjög góðir árgangar bera uppi veiðar næstu árin.


Höfundur er framkvæmdastjóri
Landssambands smábátaeigenda
 

efnisyfirlit síðunnar

...