Ráðherra í starfsstjórn - hvað má og hvað ekki? - Landssamband smábátaeigenda

Ráðherra í starfsstjórn - hvað má og hvað ekki?
Opnað hefur verið fyrir veiðar með dragnót á viðkvæmum svæðum á grunnslóð.


Í lok ágúst sl. ákvað sjávarútvegsráðherra að framlengja bann við veiðum með dragnót um 2 mánuði, þar til í dag 31. október.  Veiðisvæðin sem lokuð höfðu verið voru úti fyrir Ströndum, fyrir Norðurlandi, NA-landi og Austfjörðum.


Í tölvupósti frá ráðuneytinu vegna þessa var vakin athygli á að framlenging veiðibanns væri markaður stuttur tími þar sem ráðherra væri að skoða hvort þörf væri á breytingum.  


Í bréfi til LS dagsett 12. september kemur fram að starfshópur á vegum ráðuneytisins hafi mælt með því við ráðherra að fella úr gildi lokanir sem verið hafa á dragnót frá maí 2010.  Áður en ráðherra tæki afstöðu var óskað eftir athugasemdum frá LS sem afgreiddar voru 14. október sl.  Þar er tillögu starfshópsins harðlega mótmælt.  

„Afstaða Landssambands smábátaeigenda er óbreytt hvað veiðar með dragnót varðar.  Veiðarfærið á einungis að nýta til veiða á flatfiski en ekki koma nálægt veiðum á grunnslóð á bolfiski.  LS mótmælir harðlega öllum hugmyndum um opnun þeirra veiðisvæða sem tilgreind eru í bréfi ráðuneytisins.  Ákvörðun um lokun veiðisvæðanna var tekin eftir ítarlega skoðun og í góðri sátt við sveitarstjórnir og sjómenn í viðkomandi byggðarlögum.  Engin breyting hefur orðið þar á.  

„Megin rökin fyrir aðgerðunum var að friða innri hluta flóa og fjarða fyrir veiðum með dragnót og auka friðun grunnslóðar fyrir dregnum veiðarfærum og jafnframt mæta kröfum heimaaðila um verndun lífríkisins og skipulag hafsvæða.““ (tilv. úr bréfi ráðuneytisins)


Sjá umsögn LSHvert er vald ráðherra í starfsstjórn?

Aðgerðarleysi heimilar notkun stórvirkra veiðarfæra á svæði sem hefur verið friðað í rúm 7 ár.
Þar sem svæðin hafa verið lokuð í svo langan tíma var ekki reiknað með að sjávarútvegsráðherra mundi gera þar breytingar á þegar hann er í raun umboðslaus.  Öðru nær engin reglugerð gefin út og dragnótaveiðar heimilaðar á þessum viðkvæmu svæðum frá og með morgundeginum 1. nóvember.


LS harmar þá stöðu sem upp er komin og lítur svo á að með því að segja pass hafi ráðherra opnað svæði sem hafi verið lokað.  Hann hefði átt að framlengja reglugerð um lokun til að tryggja óbreytta stöðu.   Skorað er á ráðherra að gefa nú þegar út reglugerð sem framlengir lokun umræddra svæða fyrir veiðum með dragnót.


 

efnisyfirlit síðunnar

...