Strandveiðifrumvarpið afgreitt til 2. umræðu - Landssamband smábátaeigenda

Strandveiðifrumvarpið afgreitt til 2. umræðu
Atvinnuveganefnd hefur sent frá sér álit um strandveiðifrumvarpið ásamt því að samþykkja breytingartillögur við það.

Í áliti nefndarinnar kemur m.a. fram eftirfarandi:

„Að mati nefndarinnar hefur verið dregið verulega úr líkum þess að veiðar þurfi að stöðva með því að heildarheimildir til strandveiða hafa verið auknar. Að mati nefndarinnar eru allar líkur á því að þær viðbótarheimildir sem um ræðir tryggi að á öllum svæðum verði unnt að stunda veiðar í 12 daga alla mánuðina. Þótt takmörkuðu magni sé ráðstafað til strandveiða er mikilvægt að fá reynslu á þetta nýja fyrirkomulag áður en það er fest frekar í sessi.“

Í álitinu er vikið að þessu mikilvæga máli á nokkrum stöðum, t.d.  

„Komi til þess að ráðherra þurfi að stöðva veiðar skiptir miklu að nákvæm greining verði gerð á áhrifum þeirra breytinga sem hér eru lagðar til á sókn og þróun veiðanna yfir árið, einkum á möguleika strandveiða einstakra svæða. Fyrir liggur að í þeirri reglugerð sem ráðherra gefur út í kjölfar þessara laga er ekki eingöngu heimild fyrir ráðherra til að stöðva veiðar heldur einnig heimild fyrir ráðherra til að auka heildarveiði í samræmi við 5. mgr. 8. gr. laga um stjórn fiskveiða svo að unnt verði að nýta 12 daga til strandveiða í maí, júní, júlí og ágúst á hverju landsvæði“  


Í breytingartillögu nefndarinnar við frumvarpið er ákvæði um stöðvun veiða sett í hendur ráðherra. 
    
„Ráðherra getur með auglýsingu í Stjórnartíðindum stöðvað strandveiðar þegar sýnt er að heildarafli strandveiðiskipa fari umfram það magn sem ráðstafað er til strandveiða samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur um strandveiðar fyrir árið 2018.“ 

Í áliti og breytingartillögum nefndarinnar er einnig vikið að ufsa.  Heimilt verði að landa honum án þess að hann teljist til hámarksafla hvers báts eða til heildarafla strandveiða.


Með álitinu hefur atvinnuveganefnd teygt sig í átt til þeirra sjónarmiða sem nánast allir umsagnaraðilar gerðu athugasemdir við að með breytingu á lögunum verði að tryggja 12 veiðidaga í hverjum mánuði allt til lokadags strandveiða 30. ágúst nk.


LS leggur áherslu á að til þess að markmið tilraunarinnar um 12 veiðidaga í mánuði takist, að auka öryggi við strandveiðar, verða strandveiðisjómenn að hafa tryggingu um að ekki komi til stöðvunar veiða.  Hætt er við að ákvæðið muni leiða til aukinnar sóknar með tilheyrandi áhættu sem næði hámarki ef yfirvofandi væri tilkynning um síðasta veiðidag um miðjan ágúst svo dæmi sé tekið.  
Þar sem allir útreikningar benda til þess að ætlaður afli nægi telur LS með öllu óþarft að hafa ákvæði um heimild til stöðvunar í lögunum.


Frumvarpið fer nú til 2. umræðu og hefur verið sett á dagskrá þingfundar á morgun sem hefst kl 13:30.
 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...