Hækkandi verð á þorski - Landssamband smábátaeigenda

Hækkandi verð á þorski

Afli strandveiðibáta er enn undir því sem hann var á sama tíma í fyrra.  Vantar rúm níuhundruð tonn upp á þau 8.752 sem landað hefur verið.  


Búast má við að á næstu dögum fari að draga verulega saman með árunum, þar sem á þessum tíma í fyrra var veiðum lokið á þremur svæðum.  Síðasti dagur 2017 á svæði A var 15. ágúst og á svæðum B og C lauk veiðum 17. ágúst.  Árið 2017 skilaði alls 9.800 tonnum.


Strandveiðar gert að.jpg

Yfirstandandi tímabil hefur verið strandveiðimönnum afar erfitt.  Hér á skrifstofu LS var nefnt versta tíðarfar frá upphafi þeirra.  Viðmælandi að vestan vildi hins vegar bæta um betur og sagðist hafa stundað færaveiðar á sumrin í þrjátíu ár og hefði hann aldrei fengið aðra eins ótíð og á þessu sumri.


Alls hafa 546 bátar verið á strandveiðum á árinu, sem er 48 bátum færra en í fyrra. Eflaust hefur lágt fiskverð í byrjun vertíðar og rúmlega eitthundrað prósent hækkun á veiðigjaldi haft þar sín áhrif.  Þó engar leiðréttingar hafi enn verið gerðar á veiðigjaldi hefur afkoman ekki orðið eins slæm og allt stefndi í.  Því er fiskverðinu að þakka sem tók heldur betur við sér.   Meðalverð á mörkuðum það sem af er tímabilinu er um 16% hærra en á sama tíma í fyrra eða 235 kr/kg af þorski.  Þá virðist það sem liðið er af ágústmánuði ætla að bæta um betur upp á 276 kr meðalverð á móti 224 krónum í fyrra. 

efnisyfirlit síðunnar

...