Erindi frá LS er varða breytingar á reglugerð um hrognkelsaveiðar - Landssamband smábátaeigenda

Erindi frá LS er varða breytingar á reglugerð um hrognkelsaveiðar

Hér að neðan eru upplýsingar um innihald erinda frá LS til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins er varða reglugerð um hrognkelsaveiðar fyrir næstu vertíð.


Á 34. aðalfundi Landssambands smábátaeigenda þann 19. október 2018 var samþykkt að leggja til að áfram verði byggt á núverandi veiðistjórnun á grásleppu.  Fundurinn lagði áherslu á að veiðitími liggi fyrir áður en vertíð hefst og LS leggur til breytingar á ráðgjöf Hafró þess efnis hér að neðan undir lið h.  


Tillögur sem lúta að breytingum á reglugerð um hrognkelsaveiðar 2019 eru eftirfarandi:   

a.
4. mgr. 9. gr. í reglugerð um hrognkelsaveiðar verði felld úr gildi.
Breytingin fæli í sér að heimilt yrði að stunda grásleppuveiðar á svæði innan línu í Faxaflóa þar sem veiðar hafa verið óheimilar fyrir 7. maí.  Svæðið sem lokað er býr yfir fengsælum miðum við grásleppuveiðar og skerðir lokunin afkomu sjómanna.

b.
Þrátt fyrir ákvæði um að veiðileyfi sé gefið út til ákveðins fjölda samfelldra daga, skuli heimilt að gera hlé á veiðum með því að taka upp net.  
Það er mat grásleppusjómanna að ákvæðið mundi draga úr netatjóni og meðafla.
Bendum á svar samstarfsnefndar um bætta umgengni um auðlindir sjávar sem barst ráðuneytinu 23. janúar síðastliðinn, þessu til stuðnings.
Þar er nefnt að líklegt sé að meginlausn á vanda vegna meðafla sels í grásleppunet geti falist í auknum sveigjanleika í grásleppuveiðitíma og að leyft verði að gera hlé á veiðum þannig að forðast megi stað og stund þar sem aðstæður grásleppuveiðimanna eru slíkar að þær leiði til mikils meðafla, hvort sem er um að ræða landsel, sjófugl eða þorsk.

c.
Óskað er eftir að veiðitímabil grásleppu verði rýmkað í þeim tilgangi að skapa tækifæri til að minnka meðafla, bæta umgengni og auka jafnræði milli veiðisvæða.  Þessu til stuðnings er vísað í svar samstarfsnefndar um bætta umgengni um auðlindir sjávar.

Til að byrja með, vegna þess hve liðið er á árið, er óskað eftir að á öllum svæðum nema innanverðum Breiðafirði verði upphafsdagur grásleppuveiða 20. mars og standi til 10. ágúst.  Og að stefnt verði að því að árið 2020 hefjist grásleppuvertíð á öllum svæðum í byrjun febrúar og standi til 10. ágúst.
Nefna má að þetta eru ekki aðeins sjónarmið frá veiðimönnum og samstarfsnefnd um bætta umgengni um auðlindir sjávar, heldur einnig framleiðendum.

d.
Heimilt verði að sameina tvö grásleppuleyfi á bát.
Færst hefur í vöxt að grásleppuútgerðir geri út 2 báta og jafnvel fleiri á vertíðinni.  
Til að auka hagkvæmni útgerðarinnar, án þess að sókn aukist, yrði heildarfjöldi veiðidaga eftir sameiningu margfeldi útgefinna daga með 1,5.  Sé leyfi flutt af minni bát væri hlutfallsleg skerðing á margfeldisstuðli sem því næmi. 
Það er mat LS að yfirgnæfandi meirihluti þeirra aðila sem gera út 2 báta á grásleppu, munu leita hagræðis í að gera einungis út einn bát ef leyft yrði að færa seinna leyfið á bátinn gegn helmings skerðingu á dögum á því leyfi.  En fjöldi aðila sem gera út fleiri en einn bát er um 40.  Ef 40 bátar skerða daga sína um 50% telur LS ekki líkur á því að sá leyfafjöldi sem þeir aðilar sem nú gera út einn bát munu sækja sér, muni auka sem neinu nemur sóknardagafjölda yfir vertíðina.  Nauðsynlegt er þó að ef þetta verður heimilað, að framkvæma það á þann hátt að seinna leyfið verði hægt að aðskilja frá fyrra leyfinu síðar ef þess sé óskað.

e.
LS óskar eftir að breytingum á texta í 8. grein sem orðast svo:
„Grásleppunet skulu dregin eigi síðar en 4 sólarhringum eftir að þau eru lögð í sjó.  Frá þessu má aðeins víkja ef veður hamlar sjósókn með þeim hætti að ekki reynist unnt að vitja neta, enda hafi skipstjóri sent Fiskistofu tilkynningu þar að lútandi á netfangið grasleppa@fiskistofa.is.”

Orðist svo:
Leitast skal eftir fremsta megni að draga grásleppunet eigi síðar en 4 sólarhringum eftir að þau eru lögð.  Fari sá tími sem net liggja í sjó yfir 6 sólarhringa ber að tilkynna Fiskistofu þar að lútandi á netfangið grasleppa@fiskistofa.is þar sem fram koma ástæður fyrir því að net hafi ekki verið dregin.

LS telur enga ástæðu að hafa þessi skilyrði í reglugerðinni um 4 daga.  Það er allur hvati til að draga netin eins oft og aðstæður leyfa og það geta verið aðrar ástæður en veður sem hamla því að menn nái að draga upp netin (t.d. bilanir og veikindi).  LS hefur fengið upplýsingar um áminningar frá Fiskistofu vegna þess að menn hafa gleymt að senda tölvupóst.   Ef ekki er hægt að verða við þessu er óskað eftir upplýsingum um hvort svipað ákvæði gildi um aðrar netaveiðar.

f.
LS fer þess á leit að eftirfarandi texti í 9. grein verði felldur út:
„Hverjum bát er einungis heimilt að nota net sömu teinalengdar á hverri grásleppuvertíð.” 

Ákvæðið veldur sóun og vandræðum fyrir útgerðarmenn sem hafa í mörgum tilfellum smám saman aukið við netafjölda sinn og ekki eru allir teinar að sömu lengd.  Áfram verði gert skylt að gefa upp hámarks teinalengd og fjöldi neta miðist við þá lengd til að verða að hámarki samtals 7.500 metrar.
Það er vandséð hvaða tilgangi það þjónar að viðhalda þessu ákvæði og bagalegt að sjá bréf frá Fiskistofu þar sem menn fá áminningu eða refsingu fyrir að vera með styttri net en þeir gáfu upp.  Ef ekki er hægt að verða við þessari beiðni, óskar LS eftir skýringum á því hver tilgangurinn sé með ákvæðinu. 

g.
LS óskar eftir því að sett verði í reglugerð um grásleppuveiðar, eða annars staðar sem við á, að heimilt verði að sleppa rauðmaga á grásleppuveiðum.
LS bendir á að rauðmagi er verðlaus yfir stóran hluta grásleppuveiðitímabils en aðilum 
skylt að hirða hann og landa honum.  Fyrir liggur að rauðmagi er lífseigur og stærstur hluti hans lifir það af að vera dreginn um borð og sleppt. 
Nýjar upplýsingar úr rannsóknum á grásleppu benda til þess að hún hrygni tvisvar með um tveggja vikna millibili og af því má leiða líkur að því að aukinn fjöldi rauðmaga auki líkur á nýliðun grásleppu.

h.
Í stað núverandi kerfis þar sem ákvörðun um veiðiráðgjöf kemur eftir að stór hluti útgerðaraðila hefur hafið veiðar, verði notað keðjumeðaltal við ákvörðun aflamarks/dagafjölda.  Notað verði sama veiðihlutfall og nú er, en í stað þess að nota 1/3 frá árinu áður og 2/3 frá yfirstandandi ári þá verði tekið meðaltal veiðiráðgjafar þriggja ára á undan við ákvörðun daga/afla.

Með því er tekið tillit til sjónarmiða grásleppukarla um að fá að vita fyrirfram hversu marga daga má veiða og þeir gætu því ráðið starfsmenn og skipulagt útgerðina í samræmi við dagafjölda.
Augljóst er að það er samhengi í stærð vísitölu grásleppu milli ára þannig að ef hún er há eitt ár þá eru mestar líkur á því að hún verði jafnframt há árið eftir.  Því sjáum við enga ástæðu fyrir því að það verði að bíða með ákvörðun aflamarks þangað til að vertíð er byrjuð og leggjum til að útgefið aflamark verði byggt á meðaltali.  Að meðaltali ætti þetta því að vera nokkurn veginn sami heildarafli til lengri tíma.
Við gerum okkur grein fyrir því að gert er ráð fyrir í núverandi reglu að ekki verði veitt ráðgjöf fari vísitala neðar en lægsta vísitalan á tímabilinu frá árinu 1985.  Það er mat okkar að það séu mjög varfærin mörk og leggjum því til að þau verði lækkuð, eða að sett verði regla þar sem dregið verði úr veiðihlutfalli frá þeirri vísitölu og að stærð sem kalla mætti Blim og væri eitthvað lægri. 

Rétt er að benda á að á síðastliðnum 8 árum hefur ráðgjöf Hafró hljóðað samtals upp á 40,1 þúsund tonn og veiðin á þessum árum var 39,8 þúsund tonn. 

Vegna umræðu um meðafla í kjölfar niðurfellingar á MSC vottun á grásleppu og hugsanlegra viðbragða stjórnvalda við henni vill LS koma eftirfarandi sjónarmiðum á framfæri.


Teista

Ef reyna á að endurnýja MSC vottun á grásleppu, þarf að óska eftir því að vottunarstofan endurskoði vinnu matsmanna stofunnar vegna teistu og að hún skoði hvaða gögn lágu að baki fullyrðingum í skýrslu matsmannanna um að stofn teistu væri á niðurleið.
Náttúrufræðistofnun hefur upplýst um að ekkert hafi komið frá þeim þess efnis.  Matsmönnunum virðist hafa sést yfir að búið var að banna skotveiðar á teistu frá þar síðustu úttekt sem nam 2-3 sinnum því magni sem kemur í grásleppunetin samkvæmt meðaflaskýrslu Hafró.  Frá því að í fyrstu vottunarskýrslunni var sagt að veiðar á teistu í grásleppunet hefðu ekki áhrif á stofnstærðina, hefur í raun engin breyting orðið önnur en sú að fuglafriðunarsamtök fóru í að reikna upp meðafla á teistu og komust að niðurstöðu sem var fjórfalt það magn sem Hafró reiknaði út.  Síðan komast þeir aðilar upp með að hunsa beiðni um að útskýra aðferðafræðina við uppreikning sem LS hefur gagnrýnt og einn aðili kvittar ekki upp á aðferðafræðina þó að hann kvitti upp á skýrsluna.
Vetrarfuglavísitala teistu bendir til þess að stofninn sé á uppleið síðustu 5-6 ár og er á svipuðum stað og um árið 2000.

Engin vísindi á bak við niðurfellingu vottunar vegna áhrifa grásleppuveiða á stofnstærð teistu og engin ástæða til nokkurra viðbragða vegna hennar.


Skarfur

Skarfurinn var ekki að fella vottunina en hefði gert það á næsta ári ef hann hefði ekki komist upp fyrir 80 (mælikvarði í MSC vottun).  Stofn skarfa er sterkur og stöðugur og skotveiðiálag á stofninn nemur 2 - 4x það sem kemur í grásleppunetin.  Ef eitthvað þyrfti að gera varðandi friðun skarfa, þá er það að loka fyrir skotveiðar.
Skarfurinn kemst ekki upp fyrir 80 vegna þess að matsmennirnir nota uppreikning frá fuglafriðunarsamtökunum aftur þó að um 20 faldur munur sé á þeirra tölum og tölunum frá Hafró, sem þó eru sagðar áreiðanlegri tölur í skýrslunni sem fellir vottunina.
Það er engin ástæða til nokkurra aðgerða vegna skarfs.  Bestu upplýsingarnar um stofnstærðir þeirra tegunda sem um ræðir sem meðafla á grásleppuveiðum eru um skarfinn og NÍ hefur engar áhyggjur af honum.  Benda má á að búið væri að friða hann fyrir skotveiðum ef það væri lélegt ástand á stofninum. 
Við skotveiðar er árlega veitt mun meira af skarfi heldur en að jafnvel fuglaverndunarsamtök uppreikna sem meðafla við grásleppuveiðar.

Engin vísindi á bak við það mat vottunarstofunnar að skarfur komist ekki upp fyrir 80.


Útselur

Samkvæmt nýrri skýrslu um stofninn, þá fjölgar útsel um 50% frá 2012.  Engin ástæða til að bregðast við á nokkurn hátt vegna meðafla útsels í grásleppunet.  Gæti þó verið rétt að setja í gang verkefni um að nýta afurðir af landsel og útsel betur en gert er í dag. En eitt af hlutverkum Selaseturs er að stuðla að nýtingu selaafurða og stuðla að varðveislu verkkunnáttu tengdri selahlunnindum. 
Nú er orðin til fjögurra ára sería af útreikningi á meðafla frá Hafró og bendir hann að mati LS til þess að aðferðafræðin er röng og að breyta þurfi vinnubrögðum við hann.  Samkvæmt nýjustu skýrslu Hafró þar sem steypt er saman 4 árum 2014-2017, er heildar veiðin á því árabili 5.540 útselir (36% fráviksmörk) sem er langt upp fyrir það sem stofninn stæði undir þó að miðað væri við nýjasta stofnmatið upp á 6.300 dýr.


Landselur

Samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum stendur stofnstærð landsels í stað sem gefur til kynna að meðaflaútreikningur standi á tæpum forsendum.  Frá því að stofnstærðarviðmið Hafró var sett við 12.000 seli árið 2010 og miðað var við talningu (stofnstærð) sem hringormanefnd stóð að árið 2006, hefur ekki verið gripið til neinna aðgerða til að vernda selinn fyrir neinum veiðum og öllum leyft að drepa hann nánast hvar sem til hans næst og með hvaða vopni sem menn kjósa.  Miðað við eldri gögn má ætla að svipað magn af landsel komi í grásleppunet og við aðrar veiðar (hlunnindi, sport og laxafriðun).  Byrja ætti á að banna allar beinar veiðar á landsel og fylgjast vel með stofnstærð hans, en mikið hefur vantað upp á að fylgt hafi verið eftir markmiðum sem sett voru við stofnun selaseturs um að fylgjast með stofnstærð sela við landið.

Að lokum þetta, það hefur verið stundað markvisst seladráp með vitund starfsmanna Hafró og til áramótanna 2017/18 voru greidd verðlaun fyrir að drepa bæði landsel og útsel.  

Sé stofn landsels í hættu þurfa  stjórnvöld að banna beinar veiðar  þegar í stað og ef einhverjir aðilar eiga að vera undanþegnir veiðibanni, þarf að gera skráningu afla sem skilyrði fyrir veiðileyfi.

LS telur að það skjóti skökku við ef byrjað verður á að setja grásleppuveiðimönnum skorður til að bregðast við fækkun á landsel áður en aðrar veiðar verða bannaðar. 

LS beinir því til stjórnvalda að farið verði í vinnu við að afla gagna um það dráp sem hringormanefnd stóð að og síðar hagsmunasamtök í sjávarútvegi.  Umfangið verði kannað og samhengið við fækkun í selastofnunum rannsakað. Nefna má að LS var aðili að hringormanefnd um nokkurt skeið. 

 

efnisyfirlit síðunnar

...