Ríkisendurskoðun sýnir gula spjaldið - Landssamband smábátaeigenda

Ríkisendurskoðun sýnir gula spjaldið
Ríkisendurskoðun hefur skilað skýrslu til Alþingis „Eftirlit Fiskistofu“.  

Það er mat LS að skýrslan flytji þau skilaboð að Fiskistofa hefur ekki og getur ekki að óbreyttu sinnt þeim skyldum sem henni er ætlað lögum um stjórn fiskveiða og umgengni um auðlindir sjávar er varðar eftirlitsskyldu.


1. Eftirlit með vigtun sjávarafla

2. Eftirlit með brottkasti

3. Eftirlit með samþjöppun aflaheimilda


Þó skýrslan sé um Fiskistofu er því haldið til haga að stofnunin heyrir undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem skipar fiskistofustjóra til 5 ára í senn.  Ábyrgðin á óásættanlegri frammistöðu stofnunarinnar liggur því ekki síður hjá stjórnvöldum. 


Úr skýrslunni

Screenshot 2019-02-05 at 09.05.18.png

Það er mat LS að skýrsla Ríkisendurskoðunar sýni gula spjaldið við fjölmarga þætti.  Meðal þeirra eru hvort nytjastofnar sjávar séu nýttir með sjálfbærum hætti og að farið sé eftir því regluverki sem umlykur stjórnkerfi fiskveiða.  Varðandi þá skoðun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins að brottkast sé óverulegt innan íslenska fiskveiðiflotans er álit Ríkisendurskoðunar eftirfarandi:

„Við úttekt Ríkisendurskoðunar kom fram að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið telur að brottkast sé óverulegt innan íslenska fiskveiðiflotans þrátt fyrir þá sterku hagrænu hvata sem eru til staðar.  Ríkisendurskoðandi bendir á að Hafrannsóknastofnun hefur ekki ráðist í neinar rannsóknir á tegundaháðu brottkasti í rúman áratug auk þess sem gagnasöfnun um lengdarháð brottkast hefur dregist talsvert saman undanfarin ár.  Í ljósi þessa og að eftirlit með brottkasti er afar takmarkað, veikburða og ómarkvisst er ekki tilefni til fullyrðinga um umfang þess.  Taka verði alvarlega áhyggjur og vísbendingar um að brottkast sé stundað.  Raunverulegur árangur eftirlitsins er auk þess á huldu enda liggja hvorki fyrir skýr árangursviðmið eða árangursmælikvarðar af hálfu stjórnvalda.“Eftirlit með brottkasti

Í niðurstöðu þess kafla sem fjallar um eftirlit með brottkasti segir eftirfarandi:

„Niðurstaða Ríkisendurskoðunar er að eftirlit Fiskistofu með brottkasti sé ómarkvisst og veikburða með tilliti til heildarfjölda skipa og veiðiferða annars vegar og fjölda eftirlitsmanna og annarra úrræða til eftirlits hins vegar.  Jafnframt er eftirlit einnig takmarkað í þeim tilfellum sem eftirlitsmenn stofnunarinnar eru með í veiðiferð.  Alls óvíst er um árangur af því eftirliti sem þó er stundað og af hálfu ráðuneytisins eru engin skýr árangursviðmið eða árangursmælikvarðar fyrirliggjandi.“Eftirlit með vigtun

Varðandi vigtun sjávarafla er svipað uppi á teningunum (leturbreytingar eru LS). 

„Við úttekt Ríkisendurskoðunar lýstu stjórnendur Fiskistofu því yfir að stofnunin geti ekki sinnt eftirliti með vigtun með fullnægjandi hætti m.a. sökum þess hvernig vigtun sé háttað á vettvang, fjölda eftirlitsþátta, núgildandi regluverks og skorts á úrræðum eða viðurlögum.“

„Samkvæmt upplýsingum Ríkisendurskoðunar eru auk þess mörg dæmi um að einungis einn hafnarstarfsmaður sinni vigtun hverju sinni og að hann sé þá oft bundinn við starfsstöð sína án þess að hafa tök á að gaumgæfa samsetningu og íshlutfall þess afla sem veginn er.  Þá eru vigtarmenn oft tengdir viðskiptavinum hafnanna fjölskyldu- eða vinaböndum og erfitt getur reynst að tryggja óhæfi þeirra í sýnd og reynd.“

„Í ljósi þess hversu margir og alvarlegir áhættuþættir eru til staðar við vigtun og þá hagsmuni sem eru í húfi er núverandi fyrirkomulag framkvæmdar og eftirlits ófullnægjandi og vart ásættanlegt með tillit til markmiða áðurnefndra laga og reglugerða um stjórn fiskveiða.  Því er mikilvægt að ráðist verði í ítarlega skoðun á aðbúnaði hafna og að settar verði skýrar lágmarksköfur um vigtunarbúnað og hvernig staðið er að vigtun í löndunarhöfnum með reglugerð líkt og ráðherra hefur heimild til.“

„Ríkissendurskoðandi bendir á að frá því að Fiskistofa hóf að framkvæma greiningu á frávikum í íshlutfalli vigtunarleyfishafa árið 2013 hafa þær ekki verið framkvæmdar með reglubundnum hætti.“

Tæknin gerir eftirlit erfiðara,    Sökum örra tækninýjunga er ekki hægt að tryggja að upplýsingar úr hugbúnaði í vigtun leyfishafa séu í samræmi við raunverulega niðurstöðu vigtunar.  Hægt er að stilla vogir þannig að þær nemi t.d. 1,5 kg sem 1 kg auk þess sem hægt er að breyta virkni vigtarbúnaðar í gegnum snjallsíma og tövur vigtunarleyfishafa.  Eftirlitsmenn á vettvangi geta ekki séð hvort verið sé að breyta stillingu vogar og af þeim sökum hefur Fiskistofa um langt skeið átt, að eigin sögn, í erfiðleikum með eftirlit með endurvigtun.“Vigtun uppsjávarafla

Það er mat LS að við vigtun á uppsjávarafla þurfi að setja skýrari reglur.   Þremur aðferðum er beitt sem skila allar sitt hvorri niðurstöðunni. Áhugavert væri að vita hvernig staðið er að vigtun hjá uppsjávarfisks hjá frændum okkar í Færeyjum og Noregi og bera saman við framkvæmdina hér.  

Þessar ólíku aðferðir skila ekki allar sömu niðurstöðu.  Sem dæmi er afli vigtaður með þeim sjó sem fylgir honum við löndun þegar vigtun er framkvæmd við dælingu úr skipi.  Því fyrr í ferlinu sem afli er veginn því meiri vökvi fylgir.“

„Við vigtun heimavigtunarleyfishafa í fiskimjölsverksmiðjum er sú eina krafa gerð að þar skuli notast við löggilta vog og að vigtun skuli framkvæmd af löggiltum vigtarmanni.  Ekki eru til fyrirmæli um hvort eða hvenær vigtun telst gild eða ógild eða kröfur um það hvernig skuli vigta.  Fiskistofa hefur ekki heimild til að innsigla ýmsa stjórnloka á dælukerfum og lögnum, sem og aðra loka, þar sem hægt er að opna fyrir og dæla í tanka eða á annan stað og jafnvel fram hjá vigt.

Fiskistofustjóri sagði í viðtali í fréttaskýringaþættinum Kveik 21. nóvember 2017 að nánast vonlaust væri að hafa eftirlit með því að ekki væri verið að svindla við vigtun uppsjávarafla.  Aflinn væri oftast vigtaður eftir að búið væri að eiga við hann.“Andstaða við breytingar

Ósætti kom í veg fyrir samþykkt tveggja frumvarpa árið 2012 sem vörðuðu m.a. eftirlit með vigtun og heimildir Fiskistofu til að leggja á stjórnvaldssektir. 
 
„Í drögum að frumvarpi í júlí 2015 var kveðið á um heimild Fiskistofu til að gefa út endurvigtunarleyfi yrði felld brott úr lögum.  Jafnframt átti að vigta allan uppsjávarafla í því ástandi sem hann væri í við löndun.  Samkvæmt upplýsingum Ríkisendurskoðunar hafa tillögur ráðuneytisins um að uppsjávarfiskur sé vigtaður beint upp úr sjó, og að ákveðið vatnshlutfall verði þá leyft, mætt harðri andstöðu útgerðarfyrirtækja og samtaka þeirra.“  

Fullklárað frumvarp var aldrei lagt fyrir Alþingi.Eftirlit með samþjöppun aflaheimilda

Í lok skýrslunnar er fjallað um eftirlit með samþjöppun aflaheimilda.  Eins og í fyrrgreindum tveimur eftirlitsþáttum ríður eftirlitsþátturinn ekki feitum hesti frá þeim þætti:

Athugun Ríkisendurskoðunar leiddi í ljós að Fiskistofa kannar ekki yfirráð tengdra aðila yfir aflaheimildum með reglubundnum eða markvissum hætti út frá öllum skilyrðum 13. gr. laga um stjórn fiskveiða.  Í einstaka tilfellum ræðst stofnunin í sérstakar athuganir á fyrirtækjum úr hópi 100 stærstuútgerða landsins, t.d. í tengslum við viðskipti með útgerðarfélög sem rata í fjölmiðla, þegar grunur leikur á að tengdir aðilar hafi farið yfir leyfileg mörk.  Ljóst er að að árin 2013-17 hafði Fiskistofa ekki greinargóða yfirsýn yfir  tengsl aðila í sjávarútvegi.“

Bent er á í skýrslunni að á tímabilinu 2013-17 hafi fjögur útgerðarfyrirtæki farið yfir leyfilegt hámark aflahlutdeildar í krókakerfinu.


Grafalvarleg staða

Skýrslu þessa ber að taka mjög alvarlega.  Orðsporsáhætta fyrir íslenskan sjávarútveg er veruleg og því verða stjórnvöld að bregðast strax við og færa þá þrjá eftirlitsþætti sem til skoðunar voru til betri vegar.  Reikna má með að trúverðugleikinn kosti sitt.  T.d. náði eftirlit með yfirstöðu hjá vigtunarleyfishöfum á 5 ára tímabili 2013-17 til innan við hálfs prósents af lönduðum afla.  22 eftirlitsmenn voru starfandi hjá Fiskistofu í árslok 2017, fjórðungi færri en árið 2008.  Það er óhjákvæmilegt að fjölga eftirlitsmönnum.  Skýrsla Ríkisendurskoðunar gefur m.a. þau skilaboð að fjöldi starfsmanna hjá ráðuneyti og Fiskistofu sé komin undir þolmörk.  Flókið og viðamikið regluverk sem stjórn fiskveiða og umgengni um auðlindina er líður fyrir það.logo_LS12.jpg 

efnisyfirlit síðunnar

...