Nú fellur mér allur ketill í eld - Landssamband smábátaeigenda

Nú fellur mér allur ketill í eld
Oft hafa forsvarsmenn Landssambands smábátaeigenda verið forviða yfir röksemdum sem dregnar eru á flot þegar hafna á beiðni smábátaeigenda um þætti sem ætti vart þurfa að spyrja um.  Hafrannsóknastofnun kom með stórt innlegg inn í þennan banka í dag þegar stofnunin ákvað að leggjast gegn beiðni LS um að hrygningarstoppi lyki klukkan 04:00 í stað 10:00.


Beiðnin var tilkomin vegna línuveiða, þar sem róðrar hefjast gjarnan eldsnemma svo hægt sé að landa samdægurs innan tímamarka markaða og vinnslu.  Þar sem stoppinu lýkur ekki fyrr en 10 árdegis er sá dagur farinn og heill dagur bætist þar með við stoppið.


Í svari stofnunarinnar til Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins segir m.a. eftirfarandi:
„Upphaflega kom þessi tímasetning til þess að netabátar gætu lagt net til þess að draga þau daginn eftir en ekki til þess að hægt væri að landa afla sama dag og lokun endar“!!  
Í svarinu er einnig sagt að verði fallist á beiðni LS sé verið að grafa undan verndargildi lokana um hrygningartíma þorsks.


Beiðni LS er fram komin á því ári þegar stærð hrygningarstofns þorsks er í hæstu hæðum fjórum sinnum stærri en var við upphaf hrygningarstopps 1992,  661 þúsund tonn - 152.000.  Ennfremur að á árinu 2017 var 44% þorskaflans 8 ára og eldri, en hlutfallið árið 1992, 24%.  Auk þessa var 23% alls þorsks veiddur í net 1992, en er nú innan við 7% af 60 bátum, sem er aðeins fjórðungur þess fjölda sem stunduðu netaveiðar fyrir 27 árum.


Það er gott fyrir þjóðina að eiga góða vísindamenn á Hafró.Bréf Hafrannsóknastofnunar til ANR 

efnisyfirlit síðunnar

...