Hver er túlkun Alþjóðahafrannsóknaráðsins? - Landssamband smábátaeigenda

Hver er túlkun Alþjóðahafrannsóknaráðsins?
Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur gefið út reglugerð um leyfilegan heildarafla fyrir næsta fiskveiðiár.  Ráðherra víkur í engu frá ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar.  Í tilkynningu frá Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins segir ráðherra eftirfarandi:  

„Það að byggja ákvörðun um leyfilegan heildarafla á grundvelli vísindalegrar ráðgjafar er ein af megin stoðum íslenskrar fiskveiðistjórnunar og tryggir sjálfbærni auðlinda hafsins til framtíðar. Árangur þeirrar stefnu er ótvíræður líkt og birtist meðal annars í því að hrygningarstofn þorsks hefur stækkað á undanförnum árum og hefur ekki verið stærri í tæp 60 ár. Hins vegar blasir við okkur í ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar að það er nýliðunarbrestur í nokkrum tegundum en það er atriði sem þarf að bregðast við með frekari rannsóknum.“


LS kynnti ráðherra þann 18. júní sl. tillögu um leyfilegan heildarafla í þorski á fiskveiðiárinu 2019/2020.  Þar er ráðherra hvattur til að leyfa meiri afla en Hafrannsóknastofnun ráðleggur.  Heildarafli verði 289 þúsund tonn í stað 272.411.  Rökstuðningur fyrir aukningu liggur að mestum hluta í að undanfarin ár hefur þorskafli verið undir viðmiðunarmörkum sem aflaregla setur 20% af veiðistofni.  LS telur að mismunur sem þarna verður til eigi að bætast við ráðgjöf hverju sinni.  Að mati LS er hann um 17 þúsund tonn.  

Helsta ástæða þessa mismunar er að ráðgjöf í júní 2018 fyrir yfirstandandi fiskveiðiár byggist á að veiðistofn yrði 1.357 þúsund tonn, en mælingar í ár sýna stofninn hins vegar 1.410 þúsund tonn.  

Þar sem aflaregla stjórnvalda er viðurkennd af Alþjóðahafrannsóknaráðinu telur LS ástæðu til að ráðherra leiti til ráðsins í því skyni hvort framangreind útfærsla sé innan þeirra takmarkana sem ráðið setur.  

Hér eru gríðarlegir hagsmunir í húfi og því full ástæða til að fá framangreindu svarað.  Áætlað útflutningsverðmæti af 17 þúsund tonna þorskafla telur LS geti orðið 8,5 milljarðar.  Það munar því um þessi verðmæti á þeim tímum þegar þjóðin þarf að glíma við versnandi efnahagshorfur sem stafa einkum af samdrætti í ferðaþjónustu og aflabresti í loðnu.  

190626logo_LS á vef.jpg

 

efnisyfirlit síðunnar

...