Komið til móts við LS í makrílnum - Landssamband smábátaeigenda

Komið til móts við LS í makrílnum
Atvinnuveganefnd Alþingis hefur afgreitt frumvarp um fiskveiðar utan lögsögu Íslands til 2. umræðu.  Frumvarpið er á dagskrá þingsins í dag og er nr. 30 af 41 máli sem þar eru.  Atvinnuveganefnd gerir tillögur um verulegar breytingar á frumvarpinu sem koma mjög til móts við sjónarmið Landssambands smábátaeigenda.


LS lagði mikla áherslu í umsögn sinni og á fundi með nefndinni að teknar yrðu frá veiðiheimildir sem eyrnamerktar yrðu veiðum smábáta.  Þá óskaði LS eftir að veiðikerfin yrðu tvö, annað fyrir færaveiðar smábáta og hitt fyrir uppsjávarflotann þar sem óheimilt yrði að flytja aflahlutdeild frá smábátum.

Í breytingartillögum nefndarinnar kemur í ljós að fallist hefur verið á þessi sjónarmið.  Tryggður er aflapottur fyrir færaveiðar smábáta upp á 4.000 tonn og lagt til að makrílheimildum verði úthlutað í tvö veiðikerfi.  Hins vegar hefur ekki verið gerð tillaga um breytingar á að viðmiðunarár verði 2013-2018 í stað 10 bestu af tímabilinu 2008-2018, eins og LS gerði kröfu um.  Að hafa viðmiðunartíma þetta langan mun skerða hlutdeild þeirra sem stundað hafa veiðarnar eftir 2014 um helming og nánast þurrkar út þær heimildir sem aðrir höfðu aflað sér með veiðum 2013 og 2014 en höfðu ekki forsendur til að hefja veiðar frá 2015.  

LS leggur enn áherslu á að viðmiðunartímanum fyrir smábáta verði breytt á þann hátt að hann nái eingöngu til þess tímabils sem makríll var á veiðislóð smábáta.


Mikilvægt er að breytingartillaga meirihluta atvinnuveganefndar verði samþykkt þar sem að óbreyttu frumvarpi sjávarútvegsráðherra yrðu veiðiheimildir smábáta aðeins um þriðjungur þess sem þær voru á síðasta ári.  Með breytingunni er hins vegar bætt verulega í og hlutur smábáta fer úr 2.700 tonnum (miðað við frumvarpið án breytinga) í 6.700 tonn miðað við óbreyttan heildarafla milli ára.Makríll ísaður copy 2.jpg 

efnisyfirlit síðunnar

...