Lög um stjórn makrílveiða - Landssamband smábátaeigenda

Lög um stjórn makrílveiða

Þegar drög að frumvarpi um kvótasetningu á makríl var sett til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda síðastliðinn vetur, var ljóst að ekki var ætlun ráðherra að taka tillit til sérstöðu smábáta gagnvart myndun veiðireynslu.

Ítarleg umsögn var send inn og fengu sjónarmið LS ekki þann hljómgrunn sem vænst var.  Það var opinberlega staðfest með frumvarpi ráðherra sem hann mælti fyrir 30. mars sl.

Við fyrstu umræðu um frumvarpið var ljóst að meðbyr var með sjónarmiðum LS og smátt og smátt þokaðist í átt til lagfæringa.


Nú þegar frumvarpið hefur verið samþykkt sem lög frá Alþingi og LS lítur til þess sem áunnist hefur er niðurstaðan þessi:

Veiðikerfi verða tvö - smábátar - uppsjávarskip

Óheimilt verður að flytja aflahlutdeild frá smábátum til uppsjávarskipa. 

Smábátum verða tryggðar til leigu allt að 4.000 tonn á hverju ári.  Leigugjald það sama 
        og veiðigjald - 3,55 kr/kg á komandi vertíð. 

Miðað við að leyfilegur heildarafli verði 130 þúsund tonn eða sá sami og var á síðasta ári verða veiðiheimildir smábáta ekki 2.700 tonn eins og upphaflegt frumvarp fól í sér heldur 6.700 tonn.

IMG_8555.png
Það eru LS mikil vonbrigði að ekki var fallist á kröfu félagsins að veiðireynsla smábáta tæki mið af þeim árum þegar veiðar þeirra voru að fullu hafnar [2013-2018].  Engar breytingar voru gerðar miðað er við aflareynslu 10 ára á tímabilinu 2008-2018 þar sem fyrstu 5 árin liðu án þess að makríll væri ekki kominn á mið þeirra í neinu magni.  Einnig eru mikil vonbrigði að þeir sem fá hlutdeild í makríl skuli vera undir það settir að það sem ekki hefur náðst að veiða fyrir tiltekna dagsetningu verður fært yfir á uppsjávarskipaflokkinn. 


Í næstu viku verður gefið upp hvað hvert skip og bátur fær úthlutað og einnig hver heildarkvóti verður í makríl. Það er gagnrýnivert að ekki skuli hafa fylgt frumvarpinu útreikningur á hlutdeild skipa og báta miðað við útfærslu á viðmiðunartíma veiðireynslu samkvæmt frumvarpinu.


Stjórn LS sendi frá sér eftirfarandi ályktun um málefnið 2. apríl 2019:

„Stjórn LS lýsir undrun yfir að hér hafi verið kynnt frumvarp sem mismunar útgerðaraðilum eftir stærð og aðstöðu til veiða.  Smábátaeigendur höfðu engin tök á að afla sér veiðireynslu á fyrri hluta tímabilsins þegar makríllinn var á fjarlægum miðum, langt utan farsviðs þeirra. 

Stjórn LS krefst þess að tekið verði tillit til þessa aðstöðumunar við fullvinnslu frumvarpsins.“ 

efnisyfirlit síðunnar

...