2.000 tonn innan seilingar í makrílnum - Landssamband smábátaeigenda

2.000 tonn innan seilingar í makrílnum
Makrílveiðar færabáta hófust fyrr í ár en í fyrra.  Aflinn var því lengst af meiri í samanburði við síðasta ár.   Í vikutíma hefur veiði hins vegar verið afar léleg aðeins gefið 100 tonn sem er öfugt við það sem var í fyrra þegar 1.000 tonn veiddust á tímabilinu 17. ágúst  - 23. ágúst.


40 bátar hafa hafið veiðar og hafa þeir veitt alls 1.886 tonn sem er nánast á pari miðað við síðasta ár þegar búið var að landa 2.021 tonn þann 23. ágúst.  
Aflahæsti báturinn nú er Brynja SH með 127 tonn. Fimm aðrir bátar eru komnir með yfir hundrað tonn:  Fjóla GK með 126 tonn, Addi afi GK 123 tonn, Júlli Páls SH 122 tonn, Siggi Bessa SF 114 tonn og Guðrún Petrína GK með 106 tonn.


Á vertíðinni 2018 veiddist makríll á þremur svæðum Keflavík, við Snæfellsnes og í Steingrímsfirði.  Nú hefur hins vegar ekkert veiðst fyrir norðan, en þá hafði Herja ST frá Hólmavík veitt mest á þessum tíma 136 tonn.


Veiðin nú við Reykjanes er sáralítil og eru sjómenn þar orðnir áhyggjufullir að makríllinn hafi yfirgefið slóðina vegna kólnandi sjávarhita.  Menn lifa þó enn í voninni og benda á að veiðitímabilið hafi í flestum tilvikum náð fram yfir mánaðarmót.


Á Snæfellsnesi er veiði, en makríllinn sýnir önglunum ekki mikinn áhuga.  Þegar hann snýr við blaðinu varir það ekki lengi og því eins gott að vera á vaktinni.  Þar eru menn þó öllu bjartsýnni en fyrir sunnan.  Veiði þar var mjög góð áður en norðanáttin skall á sem olli því að sjávarhiti fór úr 12° niður í 8°.  Nú er sjór byrjaður að hlýna og því von á að veiði glæðist.   

efnisyfirlit síðunnar

...