Ýsa um allan sjó - Landssamband smábátaeigenda

Ýsa um allan sjó
Það hefur ekki farið framhjá sjómönnum sem stunda þorskveiðar á línu að allt er fullt af ýsu á slóðinni.  Oft á tíðum er hún ekki sem meðafli heldur megin uppistaða aflans.  

Aðilar hafa gripið til þeirra ráða að færa sig af hefðbundinni veiðislóð yfir á svæði sem lítil von er að fá ýsu.  Það hefur stundum dugað og stundum ekki,  en alltaf leitt til aukins útgerðarkostnaðar, sem ekki er hægt að sætta sig við.  


Veiðiheimildir í ýsu á grundvelli hlutdeildar og þess sem fært var milli ára eru nú rúmum fjórðungi minni en þær voru á sl. fiskveiðiári.  26% (12.548 tonn) í aflamarki og 22% (1.924) í krókaaflamarki.  Þessi skerðing á móti því að veiðiheimildir í þorski voru auknar lýsir kannski vandanum í hnotskurn.  Hlutfall veiðiheimilda í ýsu á móti þorski er aðeins 16%.  

Frá upphafi krókaaflamarks 1. september 2001 hefur hlutfallið hæst farið í 81% fiskveiðiárið 2007/2008, en hefur verið lægra en 20% frá 2012/2013 ef síðasta ár er undanskilið en þá var það 23%.  Meðaltal tímabilsins 2001/2002 - 2019/2020 er 32%.

Screenshot 2019-11-15 at 16.46.26.png

Annar þáttur sem vegur þungt í útgerðinni eru viðskipti með aflaheimildir.  Krókaaflamarksbátar hafa verið háðir því að fá leigðar heimildir úr aflamarkskerfinu, en nú bregður svo við að ekkert er hægt að fá leigt nema á verði sem skilar engu öðru en tapi.  

Samanlögð krókaaflahlutdeild í ýsu er 15,16% sem gefur langtum minni en afla en þeir hafa veitt undanfarin ár.  Síðastliðin 10 fiskveiðiár nemur hlutfall þeirra í heildarýsuafla að meðaltali um fjórðungi, fór hæst fiskveiðiárið 2013/2014 þegar krókaaflamarksbátar veiddu rúm 28% af allri ýsu.
Það er skoðun margra að með slíkri samfelldri veiði á ýsu hafi þeir í raun öðlast aflareynslu sem ætti að taka tillit til við úthlutun.  Sjávarútvegsráðherrar hafa hins vegar ekki fallist á þau sjónarmið.

  
Miðað við skýrslur Hafrannsóknastofnunar kemur útbreiðsla ýsunnar á óvart og vonandi að niðurstöður haustralls verði mönnum í hag þannig að forsendur myndist fyrir endurskoðaðri ráðgjöf.  

Við skoðun á aflatölum Fiskistofu staðfesta þær aukna ýsuveiði hjá krókaaflamarksbátum og togurum.  

Samanburður fiskveiðiáranna nú og í fyrra tímabilið til og með 8. nóvember sýnir að gengið hefur hraðar á útgefnar heimildir (úthlutun og færsla milli ára).  Krókaflamarksbátar að nálgast 40%.


Nýttar heimildir í ýsu 1. sept. -  

8. nóvember

2019 / 2020

2018 / 2019

Aflamark

Krókaaflamark

Aflamark

Krókaaflamark

20,1%

39,4%

16,2%

28,8% 

efnisyfirlit síðunnar

...