Mælt með breytingu á strandveiðikerfinu - Landssamband smábátaeigenda

Mælt með breytingu á strandveiðikerfinu
Starfshópur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um endurskoðun á meðferð og ráðstöfun 5,3% aflaheimilda hefur lokið störfum.  Afraksturinn kemur fram í skýrslu þar sem fjallað er um ráðstöfun heimilda sem nýttar hafa verið til strandveiða, línuívilnunar, almenns byggðakvóta, byggðakvóta Byggðastofnunar, skel- og rækjuuppbóta og frístundaveiða. 


Það vekur sérstaka ánægju að starfshópurinn telur ekki ástæðu til að takmarka nýtingu sóknardaga til strandveiða við 4 daga í viku, heimila eigi frjálst val hvenær 12 dagar hvers mánaðar eru nýttir.  


Ástæða er til að lýsa vonbrigðum með að starfshópurinn leggi ekki til að línuívilnun verði efld og nái til allra dagróðrabáta.  Þess í stað eigi ónýttar heimildir á hverju þriggja mánaða tímabili að færast sem viðbót við almennan byggðakvóta.  


Jafnframt eru það vonbrigði að starfshópurinn skuli ekki leggja til að heimildir sem fara í byggðakvóta verði eyrnamerktar veiðum dagróðrabáta.


Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra tók við skýrslunni fyrr í dag úr hendi formanns starfshópsins Þórodds Bjarnasonar.  Ekki er ólíklegt að innihald hennar verði efniviður í frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða.  

 

Tillögur starfshópsins eru settar fram 12 köflum.

1. Atvinnu- og byggðakvótar (5,3% heimildirnar) verði teknir strax til hliðar.  Í lög um stjórn fiskveiða komi eftirfarandi:  „Áður en aflamarki er úthlutað í hverri tegund skulu 5,3% aflamarksins tekin til hliðar til samfélagslegra aðgerða sem stuðla að traustri atvinnu og byggð um land allt“.  


2. Skýrari skilgreining á megintilgangi atvinnu- og byggðakvóta

        a. Byggðakvótar og tilraunaverkefni til byggðaþróunar er ætlað að efla atvinnulíf í 
                dreifðum sjávarbyggðum til framtíðar.

        b. Varasjóð verði komið á fót sem ætlaður er fyrir stjórnvöld til geta brugðist við óvæntum 
                áföllum í dreifðum sjávarbyggðum.

        c. Strandveiðum, línuívilnun og veiðum í tengslum við ferðaþjónustu er ætlað að stuðla 
                að fjölbreytni og nýliðun í sjávarútvegi um land allt.


3. Föst hlutföll hvers flokks til sex ára í senn. 


4. Áhersla á dreifðar sjávarbyggðir í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.  Úthlutun byrji að skerðast við 1.000 íbúa mörkin, 0,1% við hvern aðila og falli þannig niður þegar fjöldi í viðkomandi byggð hefur náð 2.000.


5. Strandveiðar  -  tilgangur þeirra að stuðla að fjölbreytni og nýliðun í sjávarútvegi um land allt. Takmarkanir á því hvaða tólf daga hvers mánaðar megi stunda strandveiðar verðir felldar úr gildi.  


6. Almennur byggðakvóti verði ætlaður til að efla atvinnulíf í dreifðum sjávarbyggðum til framtíðar.


7. Sértækur byggðakvóti (Byggðastofnun) verði ætlaður til að efla atvinnulíf í dreifðum sjávarbyggðum til framtíðar.


8. Línuívilnun - skilgreint verði í lögum að tilgangur hennar sé að stuðla að fjölbreytni og nýliðun í sjávarútvegi um land allt.


9. Veiðar í tengslum við ferðaþjónustu.


10. Rækju- og skelbætur falli niður og aflaheimildir renni í varasjóð til að  bregðast við óvæntum áföllum í sjávarbyggðum.  


11. Varasjóður vegna óvæntra áfalla, sem ráðherra geti úthlutað innan fiskveiðiársins.  


12. Aukin fjölbreytni atvinnulífs í sjávarbyggðum - heimilað verði að semja um nýtingu almenns byggðakvóta til tilraunaverkefna.


 

efnisyfirlit síðunnar

...