Óvissa með strandveiðar - Landssamband smábátaeigenda

Óvissa með strandveiðarStrandveiðar standa nú sem hæst.  Alls hafa 646 bátar landað afla það sem af er tímabilinu, 55 bátum fleiri en á sama tíma í fyrra.  Heildarafli hefur aukist um fjórðung milli ára og er þorskafli að loknum 7 dögum í júlí 7.095 tonn.  Dagsafli af þorski fyrstu 7 dagana í júlí er að meðaltali 233 tonn.   


Við upphaf strandveiða nú og það sem af er tímabilinu hefur LS skorað á sjávarútvegsráðherra til að tryggja nægan afla út allt tímabilið, eða til 31. ágúst.  Leiðrétta verður aflaviðmiðun úr 10.000 tonnum af þorski í 11.000 tonn, en það er sú viðmiðun sem var í fyrra og atvinnuveganefnd gekk út frá þegar lögunum var breytt 2019.  Auk þess verður að velta við hverjum steini til að koma í veg fyrir stöðvun veiða.  LS hefur bent á aukna viðmiðun með færslu ónýttra heimilda frá síðasta ári, afla í línuívilnun sem ekki nýtist og heimildum sem ætlaðar eru til frístundaveiða.


Ómar Sigurðsson.png


Stöðvun veiða hefur í för með sér margvíslegar afleiðingar sem óþarfi er að bæta við önnur áföll sem dunið hafa á þjóðfélaginu á sl. mánuðum.  Hátt í 700 atvinnutæki munu verða án verkefna, þar sem allir bátar sem á strandveiðum eru munu þá missa heimild til að stunda veiðar til 31. ágúst.  Þá mun sami fjöldi sjómanna missa tekjur af fiskveiðum frá þeim tíma.  Fiskvinnslur sem miðað hafa sitt markaðsstarf við afla frá strandveiðibátum verða hráefnislausar.  Fiskmarkaðir, þar sem allt að 80% þorskafla hjá þeim hefur komið af strandveiðum, verða fyrir verulegum búsifjum.  Doði mun færast yfir hafnir hinna dreifðu byggða.  

Hér eru aðeins nokkur atriði nefnd til vekja athygli á mikilvægi strandveiða.


Aðilar á strandveiðum bíða nú ákvörðunar ráðherra um að koma í veg fyrir þann vanda sem hér hefur verið lýst.  Ljóst er að lög heimila honum að haga málum þannig að veiðar verði ekki stöðvaðar.  Bjartsýni ríkir hjá strandveiðisjómenn og þeim sem að strandveiðum standa á að heimilt verði að stunda veiðarnar til þess tíma sem veiðileyfið gildir, þ.e. til og með 31. ágúst. 


Landssamband smábátaeigenda ítrekar áskorun sína til Kristjáns Þórs Júlíussonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að tryggja að nægar veiðiheimildir verði til strandveiða út tímabilið.

200714 logo_LS á vef.jpg
 

efnisyfirlit síðunnar

...