Andlát - Haraldur Sigurðsson Núpskötlu - Landssamband smábátaeigenda

Andlát - Haraldur Sigurðsson Núpskötlu
Látinn er Haraldur Sigurðsson frá Núpskötlu á Melrakkasléttu.


Haraldur var kosinn formaður í Fonti - félagi smábátaeigenda á Norðurlandi eystra árið 1994 og gegndi starfinu í tvö ár.  Þá var Haraldur einnig formaður Fonts 2006-2008.  Í stjórn Landssambands smábátaeigenda var Haraldur 1994-1996 og árið 2006.


Auk starfa fyrir smábátaeigendur gegndi Haraldur ýmsum öðrum trúnaðarstörf m.a. sat hann í sveitastjórnum Presthóla- og Öxarfjarðarhrepps.  


H_Sig.png
Haraldur var menntaður vélstjóri.  Hann gerði út frá Núpskötlu, sem var nyrsti bær í byggð á fastalandinu.   Þaðan stundaði hann þorskveiðar á bátnum Kötluvík ÞH frá 1991-2006.  Yfir vetrartímann var Haraldur á ýmsum skipum, meðal annars sem vélstjóri á Kolbeinsey ÞH sem gerð var út frá Húsavík, auk þess að sinna bústörfum.


Haraldur var mikill náttúrunnandi og hafði sterkar taugar til auðlinda þjóðarinnar hvort sem þær voru í hafinu eða á landi.  Stutt var á miðin og sló honum engin við í olíunotkun á hvert veitt tonn.  Algengt var að þótt vel hafi fiskast entist tankurinn hjá Kötluvík ÞH sumarið út.


Á jörðinni Núpskötlu er ein stærsta mófuglabyggð í veröldinni.  Þangað hafa ljósmyndarar hvaðan að úr heiminum vanið komu sínar til að fanga þá dýrð sem þar blasir við.  Haraldur hugsaði um jörðina eins og sjáaldur augna sinna.  Dýr sem þangað komu og áttu ekki samleið með fuglunum, kvikindi eins og refur og minkur, sendi Haraldur ákveðin skilaboð.  Refinn skaut hann og notaði hræin til að hita upp gamla bæinn í Núpskötlu, en minkinn veiddi hann í gildrur.


Undirritaður átti því láni að fagna að heimsækja Harald í hans ríki.  Það voru ógleymanlegar stundir, enda Haraldur skemmtilegur og gæddur miklum frásagnarhæfileikum.  Sögurnar byggði hann á yfirburða þekkingu og góðu minni til atburða sem hent höfðu hann á lífsleiðinni.


Landssamband smábátaeigenda þakkar Haraldi fyrir störf hans í þágu smábátaeigenda og vottar eiginkonu hans, syni og öðrum aðstandendum samúðar.


Haraldur Sigurðsson f. 2. ágúst 1943 - d. 18. september 2020.


Örn Pálsson


 

efnisyfirlit síðunnar

...