Línuívilnun í ýsu - Landssamband smábátaeigenda

Línuívilnun í ýsu
Vel hefur veiðst af ýsu á línu nú í haust.  Aflinn á fyrstu tveimur mánuðum fiskveiðiársins hefur aukist um rúman þriðjung.   Alls hafa veiðst 4.390 tonn, en á sama tímabili í fyrra skilaði veiðin 3.271 tonnum.  


IMG_0106.png
Að sögn Haraldar Ingólfssonar á Skúla ST, er ástand á miðum Strandamanna nú allt annað en í fyrra, mikið af vel haldinni ýsu af öllum stærðum.  Algengt er að hlutfallið á móti þorski sé 60-70% og þegar menn komast ekki langt frá landi vegna veðurs er smáýsa alls ráðandi.


Góð ýsuveiði á ekki eingöngu við grunnslóðina þar sem ýsuafli togara hefur aukist um 41% á þessum tveimur tímabilum, úr 3.915 tonnum í 5.504 tonn.


Hin góða ýsuveiði hefur orðið til þess að hratt hefur gengið á það magn sem ætlað er til ívilnunar við línuveiðar dagróðrabáta.  Útlit er fyrir að það verði uppurið á næstu dögum og því muni ívilnun í ýsu ekki teljast frá þeim tíma.  Magnið var skert milli fiskveiðiára, sem af tölunum að dæma hefur ekki átt rétt á sér.


LS hefur brugðist við þessu með því að fara þess á leit við Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að hann auki viðmiðun til línuívilnunar í ýsu.
 

efnisyfirlit síðunnar

...