Skýrsla Byggðastofnunar um strandveiðar - Landssamband smábátaeigenda

Skýrsla Byggðastofnunar um strandveiðar
Út er komin skýrsla Byggðastofnunar

 „Strandveiðar - Samantekt vegna breytinga á strandveiðikerfinu“.  


Skýrslan var unnin að beiðni Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur f.h. atvinnuveganefndar Alþingis.  Þar var stofnuninni falið að gera ítarlega úttekt á reynslu síðustu tveggja strandveiðitímabila, þ.e. tímabilin 2018 og 2019, með hliðsjón af breytingum sem gerðar voru 2018.


Í inngangi skýrslunnar segir m.a.:  „Í úttektinni verði lögð áhersla á byggðafestu, öryggismál, útkomu mismunandi landshluta, sveigjanleika í kerfinu og fiskgengd innan veiðisvæða á tímabilinu.  Vel verði farið yfir hvað hafi áunnist með breytingunum og hvað má gera betur.“

Screenshot 2020-11-17 at 14.33.00.png
Við gerð skýrslunnar var m.a. kallað eftir upplýsingum frá Fiskistofu um strandveiðileyfi, útgerðir og afla á tímabilinu 2010-2019.  Sendar voru fyrirspurnir til forsvarsmanna hafna, til Rannsóknanefndar samgönguslysa varðandi alvarleg slys við strandveiðar og til Samgöngustofu um aldurssamsetningu sjómanna.  Jafnframt var framkvæmd viðhorfskönnun hjá þeim 629 aðilum sem voru með strandveiðileyfi 2019.  Samtals bárust 275 svör sem er rúmlega 40% þeirra sem spurðir voru.


Í samantektarkafla skýrslunnar kemur m.a. eftirfarandi fram:

Afli 
Samanlagður afli 2016 og 2017 borinn saman við árin 2018 og 2019.  Mest var aflaaukning á Snæfellsnesi, Vestfjörðum og Hornafirði, en samdráttur mestur á sunnanverðu Austurlandi og á Ströndum.


Áhrif strandveiða á hafnir.  
Langmest eru áhrifin á Norðurfirði í Árneshreppi þar sem strandveiðiafli hefur verið 90% af lönduðum afla undanfarin ár.
Frá Norðurfirði copy.jpg
Þá skipta strandveiðar verulegu máli fyrir hafnir á:  Akranesi, Patreksfirði, Grímsey, Húsavík, Þórshöfn og Bakkafirði.

Nokkrir forsvarsmenn hafna sögðu að strandveiðar gæfu höfnunum ákveðið líf yfir sumarmánuðina.


Upplýsingar úr viðhorfskönnun

  • Yfirgnæfandi meirihluti hafði mikla ánægju af strandveiðum.
  • 86% töldu strandveiðar mikilvægar fyrir fjárhagslega afkomu fjölskyldu sinnar og 40% töldu að strandveiðar hefðu gefið yfir 40% af heildartekjum sínum.
  • 52% höfðu stundað sjómennsku í meira en 30 ár, 15% í 10 ár eða minna.
  • 28% svarenda voru undir fimmtugu.
  • 11% voru á strandveiðum í fyrsta eða annað sinn.
  • Vestlendingar og Vestfirðingar voru ánægðastir með breytingarnar sem gerðar voru á strandveiðikerfinu, en Norðlendingar og Austfirðingar síður þó meirihluti þeirra teldu breytingar á kerfinu til bóta.


Öryggi á strandveiðum
Frá upphafi strandveiða 2009 til og með árinu 2019 hefur Rannsóknarnefnd samgönguslysa skráð 216 atvik.  Flest þeirra voru vegna vélarvandræða, leka o.s.frv.

Eitt banaslys hefur orðið á strandveiðum, en það var í maí 2016.

Öryggismál eru strandveiðisjómönnum ofarlega í huga.  Það sem er efst í huga þeirra er að fyrirkomulag strandveiða megi ekki leiða til þess að menn sæki sjó í vondum veðrum með tilheyrandi áhættu.


Skýrslan færir lesendum hennar fjölmargar upplýsingar.  Enginn skortur er á tölum í skýrslunni og hún því mikilvægt innlegg fyrir framtíðarþróun strandveiðikerfisins.  


Skýrslan í heild:   Strandveiðar_samantekt.pdf 

efnisyfirlit síðunnar

...