Strandveiðar margsannað gildi sitt - Landssamband smábátaeigenda

Strandveiðar margsannað gildi sittFrumvarp til laga um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða (atvinnu- og byggðakvótar) er nú til meðferðar í atvinnuveganefnd Alþingis.  Alls bárust 24 umsagnir við frumvarpið.


Meðal þeirra er umsögn frá Samtökum fiskframleiðenda og útflytjenda (SFÚ) þar sem lýst er yfir fullum stuðningi við framkomna umsögn frá Landssambandi smábátaeigenda við frumvarpið.


SFÚ bendir á „að fyrirtæki innan samtakanna treysta á hráefnisöflun á frjálsum markaði“.  Þar standi tvennt upp úr jákvæðir áhrifavaldar;  strandveiðar og línuívilnun.


Í niðurlagi umsagnar Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda segir eftirfarandi:  „Að mati SFÚ hafa strandveiðar margsannað gildi sitt, umræðuefnið ætti því að snúast um hvernig styrkja mætti þær enn frekar.  Alls ekki ætti með nokkrum hætti að vinna á móti eflingu þeirra, SFÚ mótmælir harðlega þeim hluta frumvarpsins sem vinnur að því.“Engar strandveiðar

Við annan tón kveður í umsögn Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) varðandi strandveiðar.  Þar er ítrekuð afstaða samtakanna „að hætta eigi strandveiðum og fella aflamark, sem tekið hefur verið af öðrum og ráðstafað til þessara veiða, undir aflahlutdeildarkerfið.“


Þá er í umsögn SFS komið inn á takmarkanir við hráefnisöflun strandveiða.

„Fiskvinnslufyrirtæki þurfa hráefni allt árið, en strandveiðar geta ekki stuðlað að öruggum eða arðbærum rekstri vegna þess í hve skamman tíma þær standa, einkum með tilliti til þess að strandveiðar eru af stórum hluta stundaðar af aðilum sem hafa ekki fiskveiðar að aðalatvinnu heldur frekar áhugamennsku.“ eins og segir í umsögn SFS.


SFS er andvígt því sem lagt er til í frumvarpinu að fella á brott takmörkun á hvaða vikudögum megi stunda strandveiðar og tilgreinir eftirfarandi sem ástæðu:  

„Verði það gert þá mun sú aðgerð að mati samtakanna grafa undan sóknarstýringu strandveiðanna.  Ekki verður betur séð en að sá afli sem þessum bátaflokki er ætlaður geti þá nást fyrr á veiðitímabilinu, sem skapar þrýsting á að veiðar verði ekki stöðvaðar við þær aðstæður þegar heildarafli hefur náðst.  Þær aðstæður leiða í kjölfarið til þrýstings á flutning meiri aflaheimilda til strandveiðiflotans á kostnað annarra sem fiskveiðar stunda með tilheyrandi tjóni.  Þessar afleiðingar eru því miður þekktar.“ 
 

efnisyfirlit síðunnar

...