Netin full dag eftir dag - Landssamband smábátaeigenda

Netin full dag eftir dag
Afli á grásleppuvertíðinni sem hófst 23. mars sl. var kominn í 1.396 tonn eftir löndun í gær 14. apríl.  Góðar gæftir hafa verið undanfarna daga og mokveiði.  105 bátar eru byrjaðir veiðar og má búast við að þeim eigi eftir að fjölga töluvert en á síðustu vertíð stunduðu veiðar 201 bátur, um 50 færri en í meðalári.  Ástæður þess voru að um mánaðamótin apríl / maí var leyfilegum heildarafla náð og veiðar því stöðvaðar.
173903880_1953768551456123_1674749390489231227_n.png

Veiðidagar á vertíðinni eru 40, sem taka mið af tillögu Hafrannsóknastofnunar að veiði fari ekki umfram 9.040 tonn.  Miðað við metveiði í fyrra kom mælingin ekki á óvart þó fæstir hafi búist við 74% sveiflu milli ára.  Meðaltal ráðgjafar stofnunarinnar á átta ára tímabili [2013-2020] er 5.386 tonn.  


Það þarf því ekki að koma neinum á óvart að markaðurinn hiksti við slíkum tíðindum og ekki hefur Covid-19 haft áhrif til góðs.  Kaupendur tilkynntu um eitt hundrað króna verðlækkun á hvert kíló og greiða nú 130 kr/kg fyrir óskorna grásleppu.  Ekki liggur fyrir hversu mikið magn verður hægt að selja á því verði.  Að óbreyttu er ekki markaður fyrir þann heildarafla sem nú er leyfilegt að veiða.


Samanburður nú við síðasta ár sýnir að met verður slegið á yfirstandandi vertíð.  Vertíðin í fyrra skilaði dagsveiði upp á 995 kg, en sambærileg tala á vertíðinni nú þegar staðan var tekin 14. apríl var fjórðungi hærri - 1.258 kg. 

    
174004667_314939216634686_4541075068758773498_n.png


Meðaltal á bát er komið í 13,3 tonn en í fyrra skilaði öll vertíðin meðalafla upp á 26 tonn.  Átta bátar eru komnir með yfir 30 tonna afla.  Aflahæstur er Sigurey ST með 42,1 tonn.

173945089_212675420199608_3776001542794911655_n (1).png
 

efnisyfirlit síðunnar

...