Yfirlýsing frá Fonti - félagi smábátaeigenda á NA-landi - Landssamband smábátaeigenda

Yfirlýsing frá Fonti - félagi smábátaeigenda á NA-landi
Fontur harmar ákvörðun sjávarútvegsráðherra að skerða afla til strandveiða á komandi sumri, en treystir því að hún verði endurskoðuð og 48 dagar tryggðir til veiðanna. 


Ákvörðun ráðherra sýnir að knýjandi er að breyta fyrirkomulagi á ráðstöfun aflaheimilda úr 5,3% pottinum.  Strandveiðar eiga ekki að vera háðar viðskiptum uppsjávarútgerða með veiðiheimildir.


Óumdeilt er að útgerð smábáta hefur spornað gegn samþjöppun og komið í veg fyrir að fjölbreyttur sjávarútvegur legðist af í hinum dreifðu byggðum.  Strandveiðar yfir sumarið hafa tryggt útgerð hundruð smábáta sem landað hafa afla á tuga útgerðarstaða um land allt.  Þannig hafa hafnarmannvirki fengið endurnýjað hlutverk ásamt þjónustuaðilum.  Síðast en ekki síst hafa strandveiðarnar gefið nýjum aðilum tækifæri á að hefja útgerð.


Veiðar smábáta á strandveiðum eru njörvaðar niður með alls konar takmörkunum.  Það sem stjórnvöld ná þó ekki til er náttúran sjálf;  veður og fiskgengd á grunnslóð.  Að vitna í ofanálag til vísindalegrar ráðgjafar Hafrannsóknastofnunar er til að æra óstöðugan.  Veiðar smábáta með handfærum þar sem aflinn sveiflast til og frá um 1% af leyfilegum heildarafla á enga samleið með vísindalegri nálgun.


Þórshöfn 18. janúar 2022


fh. stjórnar Fonts

Halldór Rúnar Stefánsson
formaður

Screenshot_20220118_202548_com.huawei.himovie.overseas (1).png
 

efnisyfirlit síðunnar

...