Óttinn við frelsið - Landssamband smábátaeigenda

Óttinn við frelsið
Í Bændablaðinu sem út kom í dag 9. júní birtist grein eftir Arthur Bogason formann LS.

Screenshot 2022-06-09 at 19.51.45.png

Hér eru nokkrar tilvitnanir í greinina.


„(LS) var stofnað 5. desember 1985. Það sem rak menn til samstöðu var augljós ætlan löggjafans í náinni samvinnu við stórútgerðina að þurrka út smábátaútgerðina og það snarlega. Regluverkið utan um þá útgerð var lyginni líkust. 

Árið 1984 var trillukörlum ætluð 8.300 tonn af óslægðum þorski og ekkert af öðrum tegundum. Smábátarnir voru þá rétt innan við 900. Það þarf ekki doktorsgráðu í kjarnorkueðlisfræði til að sjá ætlunarverkið.“ 

Arthur mini 2 copy 5.png
„Barátta LS skilaði því smám saman að veiði smábátaflotans árið 2016 náði hæstu hæðum, eða tæp 96 þúsund tonnum í heildarafla og voru á síðasta fiskveiðiári yfir 85 þúsund tonn. 

Þessi árangur smábátaeigenda er alger undantekning frá þeirri þróun sem almennt hefur verið í heiminum. Því fer fjarri að stórútgerðin hérlendis sé einhver undantekning í því að reyna að sölsa undir sig veiðiheimildir viðkomandi hafsvæða. Á heimsvísu hefur smábátaútvegurinn átt undir þung högg að sækja. Sú botnlausa della sem upp á íslensku heitir hagkvæmni stærðarinnar er keyrð af fullkomnu miskunnarleysi af ýmsum alþjóðlegum stofnunum. Um þessar mundir fer þar fremst í flokki WTO (Alþjóðaviðskiptastofnunin) og fyrir þá sem vilja fræðast nánar þar um, ráðlegg ég að fara á vefsvæði stofnunarinnar.“ 


„Þetta lýsir í hnotskurn vandanum sem smábátaeigendur og -veiðimenn glíma við, ekki bara hérlendis, heldur alls staðar. Þeir eru ekki hafðir með í ráðum, þeirra þekking og skoðanir eru hunsaðar og undantekningarlítið gert sem minnst úr þeim.“ 


„Á Íslandi gefa ákveðin stjórnmálaöfl sig út fyrir að vera fulltrúar einstaklingsfrelsisins, önnur að þau vilji standa vörð um jafnan rétt þegnanna, en það vinsælasta hjá þeim öllum er að kyrja frasann að „fylgja beri bestu vísindalegu þekkingunni“. 


Ég man vel þegar verið var að koma strandveiðikerfinu á koppinn. Á Alþingi voru höfð uppi stór orð um að með því að lögfesta slíkt kerfi myndu þúsundir manna flykkjast á vettvang og sprengja öll viðmið í tætlur. 
Þessi ofsahræðsla við frelsið, ekki síst af þeim sem segjast standa vörð um það, var beinlínis pínleg. Skynsamasta fólk týndi sér í ímynduðum veruleika sem hefur ekki staðist nokkra skoðun.“ 


„Smábátaútgerðin lagði grunninn að öllu því sem sjávarútvegurinn státar af í dag. Hún á sögulegan rétt til þess að njóta forgangs. 
Óttinn, hræðslan við frelsið, er óttastjórnun, vel þekkt verkfæri stjórnvalda í gegnum mannkynssöguna til að hræða almenning til hlýðni. Nú eru vísindin miskunnarlaust notuð til að brýna þetta verkfæri. 

Það er kominn tími til að skera af sér þetta vistarband.“

 

 

efnisyfirlit síðunnar

...