Sjávarútvegsráðherra á Alþingi – takmarka þarf enn frekar flottrollsveiðar - Landssamband smábátaeigenda

Sjávarútvegsráðherra á Alþingi – takmarka þarf enn frekar flottrollsveiðar


Í gær fór fram utandagskrárumræða á Alþingi um ástand íslenska þorskstofnsins og veiðihorfur. Alls tóku 10 þingmenn að sjávarútvegsráðherra meðtöldum þátt í umræðunni.
Í ræðu málshefjandi Magnúsar Þórs Hafsteinssonar (F) lýsti hann áhyggjum sínum yfir lækkandi kynþroskaaldri þorsksins sem orðið hefði á sl. árum. Hann sagði það ekki boða góð tíðindi og mikil sóun væri í því þegar orka ungs fisks færi í hrygningu. Þá sagði Magnús það einnig slæm tíðindi að meðalþyngd 4 – 8 ára þorsks hefði lækkað um 13% á árunum 2002 til 2004 og um fimmtung hjá 9 – 10 ára þorski. Greinilegt væri að þorskinn vantaði æti, ekki síst loðnu og einnig annað til að bæta sér upp loðnuskortinn.

Sjávarútvegsráðherra Einar Kristinn Guðfinnsson (D) taldi síðustu ástandsskýrslu Hafrannsóknastofnunar ekki vera svarta eins og margir vildu halda fram, „hún gæfi ekki tilefni til að vera með einhverja heimsendaspádóma“. Hrygningastofninn hefði t.d. ekki verið stærri síðan 1981, 260 þús. tonn.
Í dag þyrftum við sérstaklega að horfa til þess að þorskur hefur minna aðgengi að loðnu. Hann sagðist ekki hafa í hyggju að banna loðnuveiðar og ekki sumarloðnuveiðar, en sagði að flotrollsveiðarnar væru sérstakt áhyggjuefni og kvaðst ætla að beita sér fyrir breytingum varðandi þær. Hann sagði það einnig vera áhyggjuefni að gengið hefði verið of nærri stærsta þorskinum, hann væri nú í sögulegu lágmarki. Ýmislegt hefði þó verið gert til að vernda hann og nefndi hann minnkun möskva í þorskanetum.
Ráðherrann talaði skýrt varðandi aflaregluna og kvaðst ætla að halda sig við 25% mörkin.

Jón Gunnarsson (S) sagði það ágreiningslaust að mistekist hefði að byggja upp þorskstofninn. Hver ástæðan væri lægi ekki fyrir, en margt hefði farið öðru vísi á sl. 20 árum en ætlað hefði verið, t.d. væri sóknin alltaf að þyngjast í verðmætasta fiskinn og væri það viss ógnun við þorskstofninn.

Kristinn H. Gunnarsson (B) árangur uppbyggingarstarfs sl. 20 ára væri vonbrigði. Vandinn virðist ekki liggja í klaki eða seiðum, heldur væri hann á leiðinni frá seiði til fisks. Hann sagði brýnt að veiðarfærastýring kæmi inn í veiðiráðgjöfina. Einnig hvatti hann til verndar og lokana svæða. Kristinn sagðist hlynntur aukinni stýringu í veiðar á fæðu þorsksins.

Steingrímur J. Sigfússon (V) stöndum frammi fyrir breyttum skilyrðum í hafinu. Allur samanburður væri því erfiður þannig að torsóttara er að komast að niðurstöðu um hvers vegna ástand þorskstofnsins er eins og það er. Steingrímur sagðist hlynntur reglum sem takmörkuðu sókn í stærsta fiskinn. Hann tók undir með sjávarútvegsráðherra að auknar flotrollsveiðar væru áhyggjuefni. Það gæti ekki annað verið en þær yllu verulegu affalli seiða.

Guðjón Arnar Kristjánsson (F) það væri alltaf að koma betur og betur í ljós hversu þekking þeirra sem umgangast miðin allan ársins hring er mikilvæg. Vitnaði til áranna ´64 - ´68 þegar stórþorski var mokað upp með nót. Skipstjórar hefðu farið að efast um að þetta væri rétt og komu því til leiðar að þorskanótin var bönnuð. Hafrannsóknastofnun hefði hins vegar sagt að svo gamlir þorskar mundu hvort eð er drepast úr elli ef þeir yrðu ekki veiddir. Guðjón ræddi einnig um mikla þorsks- og ýsugengd inn í flóa og firði umhverfis landið.

Guðjón Hjörleifsson (D) tók undir skoðanir annarra um að uppbygging þorskstofnsins hefði ekki gengið upp sem skyldi. Hann ræddi áhrif loðnuveiða m.t.t. þess að þorskurinn hefði ekki haft aðgengi að loðnu. Guðjón taldi að nótaveiðar hefðu þar engin áhrif.

Jóhann Ársælsson (S) nú væri það svo að vísindamenn Hafrannsóknastofnunar teldu að stærð hrygningarstofnsins hefði úrslitaáhrif á nýliðun. Þá gerði hann afstöðu Hafrannsóknastofnunar varðandi veiðarnar að umtalsefni. Þar væri sú skoðun ríkjandi að sama væri hvernig þorskur væri drepinn.

Hjálmar Árnason (B) staðreyndin væri sú að menn vissu afskaplega lítið um þessi vísindi og því væri lítið annað hægt að gera í stöðunni en að rannsaka meira.

Jón Bjarnason (V) sagði það eðlilega kröfu að veiðarnar væru stundaðar á vistvænan og sjálfbæran hátt.
Jón sagði nú vera komin upp athyglisverð staða þar sem Hafró hefði viðurkennt að þorskur hér væri samsettur úr mörgum stofnum, en ekki einum eins og haldið hefði verið. Þessi nýja vitneskja kallaði á efasemdir um að kvótakerfið væri þorskstofninum hagstætt þar sem það hefði byggt á að hér hefði verið einn þorskstofn. Umhugsunarvert hvort ekki væri rétt að gefa út staðbundnar veiðiheimildir m.t.t. til þessara nýju upplýsinga.

Magnús Þór Hafsteinsson (F) lagði áherslu á að allt yrði gert til að auka fallþunga þorsksins. Draga ætti úr loðnuveiðum í því skyni að auka æti á grunnslóð.

Einar Kristinn Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra (D) sagðist almennt vera því sammála að uppbygging þorskstofnsins hefði ekki tekist. Veiðarfærastýring væri orðin staðreynd og ætti eftir að aukast. Huga þyrfti að fæðuframboði þorsksins. Varðandi loðnuveiðar þyrfti að rannsaka áhrif veiðarfæra og takmarka enn frekar flottrollsveiðar. Það væri áhyggjuefni að loðnan virtist hætt að ganga vestur fyrir Reykjanes.


Ath. hægt er að nálgast ræður þingmanna á slóð: http://www.althingi.is/altext/132/12/l08133035.sgml

1 Athugasemdir

Ég segi frá þessum umræðum í pistli á heimasíðu minni. http://www.althingi.is/magnush/safn/002265.html#002265

 

efnisyfirlit síðunnar

...