Skorað á ráðherra - Landssamband smábátaeigenda

Skorað á ráðherraMargar línuútgerðir eru nú komnar í veruleg vandræði vegna ónægra veiðiheimilda í ýsu.  Magn hennar á grunnslóðinni er ekki í neinu samræmi við útgefnar veiðiheimildir.  Búist var við að eitthvað mundi draga úr ýsu sem meðafla við þorskveiðar upp úr áramótum, en það hefur ekki gengið eftir. 


Í bréfi sem Bárður Guðmundsson skipstjóri og útgerðarmaður Kristins SH sendi LS í lok janúar víkur hann að málefninu.  

„Ég er búinn að stunda sjósókn hér við Breiðafjörð í all mörg ár.  Aldrei nokkurn tíman hef ég orðið var við eins mikla ýsu hér eins og er á slóðinni.  Síðast þegar ég var á sjó 22. janúar var skíta kaldi svo ég komst ekki norðurum eins og ég ætlaði að gera.  Í stað þess fórum við með landinu í svokallaða Vesturbrún.  
Á þessum árstíma á maður að öllu eðlilegu að fá þorsk þar, en skemmst er frá því að segja að við fengum 12 tonn á leguna og var ýsa 8 tonn og þorskur 3,7 tonn.  Ég var með svo mikinn móral að ég hef ekki farið á sjó síðan.“

og Bárður heldur áfram:

„Þessi saga er bara brota brot af því sem er að gerast á miðunum allt í  kringum landið, og öllum er kunnugt um.  Það er orðið hræðilegt ástand ef menn geta ekki stundað heimamið með eðililegum hætti, afkoma sjómanna, beitningafólks og fyrirtækja á krókabátum er að komast i uppnám.“


Frásögn Bárðar er gott dæmi um þau gríðarlegu vandræði sem nú ríkja í sjósókn línubáta.   

Eftir að málefnið hafði verið rætt á Alþingi 16. janúar voru bundnar vonir við að Steingrímur J. Sigfússon atvinnvega- og nýsköpunarráðherra mundi einhenda sér í að leysa það.  Þar hét hann því að málið yrði skoðað af fullri alvöru á næstunni.

Þrátt fyrir að LS hafi stöðugt knúið á um lausn og bent á leiðir þar um, hafa engar tillögur enn komið frá ráðuneytinu.
 
Hér með skorar LS á ráðherra að standa við orð sín.  Ástandið versnar með degi hverjum og kallar á tafarlausa úrlausn.
 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...